149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hrædd um að þessi ákvörðun á milli umræðna, að skera niður til vísindastarfs, sé ekki bara stílbrot heldur hreinlega brot og það er bara búið að breyta um stefnu. Þetta er ekki sú stefna sem skrifuð er í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár og var samþykkt hér í vor. Það er með öllu óskiljanlegt að meiri hlutinn hafi ákveðið að skera niður til þessara mála á milli umræðna og ég vil biðja hv. þingmann um að fara betur yfir þetta með mér.

Við erum hér fjárveitingavaldið. Við þurfum að vita í hvað framkvæmdarvaldið ætlar að nýta sína peninga. Formaður fjárlaganefndar getur ekki staðið hér í þessari pontu og sagt við okkur þingmenn: Við ætlum að gera þetta einhvern veginn og það er framkvæmdarvaldið sem ætlar að finna út úr þessu. Við þurfum að fá að vita hvernig á að standa við stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og hvernig stendur á því að ákveðið var að hverfa frá þeirri stefnu á milli umræðna.