149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir og biðst eiginlega forláts á að vera að koma með svona stórt mál þar sem er aðeins mínúta til svara. En kannski er niðurstaðan sú að við þurfum að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Það er alveg ljóst að fjármálaráðuneytið hefur á þessum árum ekki staðið sig sem eigandi, sem gæslumaður þessa verkefnis, sem gæslumaður almannafjár. Það er ljóst að samgönguráðuneytið, þar áður innanríkisráðuneytið, hefur heldur ekki staðið sig í því máli að skapa Íslandspósti rétt rekstrarumhverfi. Þarna undir liggja tvær fastanefndir þingsins. Við erum líka að tala um, eins og hv. þingmaður kemur inn á, stjórn þessa fyrirtækis, stjórnendur sem ekkert hafa gert, eftir því sem maður kemst næst, í því að taka alvarlega þær vísbendingar sem þó hafa fengist og gera af alvöru einhverjar aðhaldskröfur í rekstrinum. Maður veltir fyrir sér: Er ástæðan sem við stöndum frammi fyrir hér sú að það er alltaf hægt að fara í vasa (Forseti hringir.) skattgreiðenda á endanum?