149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, andsvarið. Ég fagna að sjálfsögðu því sem hv. þingmaður sagði, að stjórnvöld væru mjög meðvituð um stöðu landbúnaðarins. Það er mikið fagnaðarefni. En það er nú einu sinni þannig að orðum verða að fylgja athafnir. Það er bara þannig. Ef við skoðum sérstaklega þennan tollasamning við Evrópusambandið þá kemur hann til með að hafa veruleg áhrif á innlenda búvöruframleiðslu.

Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði í ræðustól að hann væri að vinna að mótvægisaðgerðum til að mæta þeim vanda sem innlend búvöruframleiðsla kemur til með að standa frammi fyrir, og stendur frammi fyrir, vegna þessa samnings. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að núna hefðu fylgt einhverjar fjárheimildir til að bregðast við þessum vanda og setja í mótvægisaðgerðir. Það hefur enginn fengið að sjá þær mótvægisaðgerðir sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur boðað. Það er orðið tímabært að þær fari að líta dagsins ljós. En að sjálfsögðu vona ég að ríkisstjórnarflokkarnir komi þá með mikla og stóra sókn til handa landbúnaðinum í næstu fjármálaáætlun.

En staðan er ósköp einföld. Það er ekki að sjá neinar greiðslur til að mæta vandanum. Það er ekki að sjá neinar fjárheimildir fyrir sauðfjárbændur sem enn búa við vanda. En ég vil þó þakka það að komið var aðeins til móts við loðdýrabændur. En í mínum huga er alveg ljóst að orðum verða að fylgja athafnir.