149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

kjararáð.

413. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð.

Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs. Ríkisstjórnin ákvað, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, í janúar sl. að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Hópurinn var skipaður fulltrúum ríkisins og fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins. Átti hópurinn að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, væri annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.

Jafnframt átti hópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs og meta þá með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem njóta samningsfrelsis og þeirrar launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að ákvörðun launa fyrir þjóðkjörna fulltrúa og æðstu embættismenn ríkja verði alltaf erfitt og umdeilt viðfangsefni. Þessar starfsgreinar fari með æðstu völd í samfélaginu og hafi því engan viðsemjanda um laun. Þá tengjast æðstu embættismenn einnig hinu pólitíska sviði á ýmsan hátt. Almennt sé viðurkennt að ákvörðun launa dómara og nokkurra annarra starfsgreina njóti sérstöðu vegna þess að tryggja þurfi starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins. Þessi sjónarmið hafa í ýmsum ríkjum einnig verið talin gilda um þá sem fara með saksóknarvald og forsvarsmenn ýmissa opinberra eftirlitsstofnana.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að mismunandi er eftir ríkjum hvernig fyrirkomulagi launaákvarðana sambærilegra hópa er háttað. Hér á landi hefur ákvörðunarvaldið um nokkurt skeið verið í höndum óháðs úrskurðaraðila, um tíma Kjaradóms og kjaranefndar og síðar kjararáðs. Ákvarðanir þessara úrskurðaraðila hafa verið deiluefni í samfélaginu. Í því samhengi má nefna að í desember árið 2005 greip Alþingi til lagasetningar vegna umdeildra úrskurða Kjaradóms og var hann ásamt kjaranefnd lagður niður. Við tók kjararáð árið 2006 og hefur löggjafinn gripið inn í störf ráðsins þegar þörf hefur þótt á, ef maður má orða það þannig. Fyrst með lækkun launa um 5–15% í kjölfar bankahrunsins sem var aðgerð hugsuð til þess að setja visst fordæmi fyrir vinnumarkaðinn í heild, miklu frekar en sem sjálfstætt inngrip inn í ákvarðanir ráðsins, og síðan var ákveðið að frysta launin í framhaldinu hjá hópum sem heyrðu undir ráðið.

Fram kemur í skýrslu starfshópsins að frá lokum árs 2011 til loka árs 2015 ákvað kjararáð launabreytingar að mestu í samræmi við kjarasamningsbundnar hækkanir og almenna launaþróun. Í lok árs 2015 var hins vegar tekin ákvörðun um breytingar á launum dómara sem hafði í för með sér umtalsverðar hækkanir. Hið sama var uppi á teningnum árið 2016 þegar kjörnir fulltrúar og ýmsir embættismenn voru hækkaðir í nokkru samhengi við þær ákvarðanir sem teknar höfðu verið árið áður um dómara. Þessir úrskurðir voru umdeildir og í kjölfar þeirra hófst umræða um fyrirkomulag kjaraákvarðana en sú umræða leiddi til skipunar starfshópsins um málefni kjararáðs.

Virðulegi forseti. Tillögur starfshópsins um fyrirkomulag launaákvarðana birtast í sjálfstæðri skýrslu, en áður en ég fer út í efnisatriði þeirra tillagna vil ég láta þess getið að Alþingi hefur í millitíðinni, þ.e. frá því að ákvarðanir kjararáðs komust í hámæli, tekið ákvarðanir um breytt fyrirkomulag þessara mála. Þannig höfum við nú þegar verulega fækkað þeim sem heyra undir ráðið og fleiri ákvæði voru innleidd í millitíðinni en að lokum og í framhaldi af tillögum þessa starfshóps var ákveðið að fara aðra leið og kjararáð var lagt niður eins og fram hefur komið.

Tillögur starfshópsins frá því snemma á þessu ári voru eftirfarandi:

Horfið verði frá því að úrskurða í kjararáði, eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila, um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra.

Laun þingmanna verði ákvörðuð í lögum um þingfararkaup með fastri krónutölufjárhæð miðað við tiltekið tímamark. Laun ráðherra verði ákveðin með sama hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands. Sama gildi um starfstengdar kostnaðargreiðslur sem jafnframt verði einfaldaðar og gagnsæi þeirra aukið. Laun forseta Íslands verði ákveðin með sambærilegum hætti í lögum um laun forseta Íslands.

Kjör dómara verði einnig ákveðin í lögum með fastri fjárhæð.

Þau laun sem þannig eru fastsett með lögum verði endurákvörðuð 1. maí ár hvert og gildi óbreytt í eitt ár frá þeim degi.

Við endurákvörðun launa telur starfshópurinn rökrétt að miða við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna, eins og það birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár.

Hagstofan birti upplýsingar með stuttri greinargerð um breytingu meðaltals reglulegra launa ríkisstarfsmanna eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Vegna alþjóðlegra skuldbindinga um sjálfstæði seðlabanka og fjármálaeftirlits og hlutverks þeirra við að tryggja fjármálastöðugleika og efnahagslegan stöðugleika er eðlilegt að bankaráð Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins taki ákvörðun um laun æðstu stjórnenda þeirra.

Um aðra sem heyra nú undir kjararáð gildi að meginstefnu samningsréttur um kaup og kjör eða það fyrirkomulag sem ákveðið var í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér undir falla einnig biskup Íslands og starfsmenn þjóðkirkjunnar en taka þarf tillit til skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni í því sambandi.

Þetta eru meginatriði tillagna starfshópsins. Helstu röksemdirnar fyrir breyttu fyrirkomulagi voru þær að fyrst má telja að breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verði ekki leiðandi, það megi ekki gerast. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi milli launaþróunar þeirra og annarra. Þetta er þá eins konar eftiráuppgjör.

Þróun á launum verður jafnari með þessu fyrirkomulagi að mati starfshópsins. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist á langinn og hækkanir verði af þeim sökum í stórum stökkum.

Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru laun embættismanna og dómara hvergi aðgengileg almenningi og illskiljanleg, m.a. vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.

Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt. Má segja að þetta atriði hafi verið ákveðnum vandkvæðum bundið með kjararáðsfyrirkomulaginu.

Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Með því er átt við að á stundum hefur verið deilt á skýrleika ákvarðana kjararáðs. Þau störf sem um ræðir eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru meira eða minna hin sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.

Þetta er þó kannski ekki alveg algilt. Ef við tækjum t.d. þingmannsstarfið til viðmiðunar hefur það svo sem breyst í tímans rás töluvert mikið og það kann að vera að sá tímapunktur komi í framtíðinni að menn telji að það starf þingmannsins sem haft var til hliðsjónar við launasetninguna, verði þetta frumvarp að lögum, hafi breyst þannig að ástæða sé til að taka launasetninguna upp til endurskoðunar.

Samræmi er eitt af áhersluatriðunum, samræmi um launaákvarðanir. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, að mestu með hliðsjón af þeim tillögum sem fram koma í skýrslu starfshópsins um kjararáð. Að mestu er byggt á tillögum starfshópsins.

Í frumvarpinu er lagt til að störf sem fallið geta undir launafyrirkomulag sem ákveðið er í 39. gr. a starfsmannalaga geri það.

Í ljósi eðlis nokkurra starfa þykir þó ekki rétt að ráðherra eða hlutaðeigandi ráðherra hafi aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara þeirra vegna sjónarmiða um sjálfstæði starfanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það eru dæmi um slík störf.

Lagt er til að laun þessara aðila verði fest við ákveðna krónutölufjárhæð. Jafnframt er lagt til að krónutölufjárhæðin verði endurákvörðuð ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins eins og þær birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár. Þetta er samkvæmt tillögu nefndarinnar. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofan hefur birt tölurnar fyrir 1. júní ár hvert komi það í hlut Fjársýslu ríkisins eða launagreiðanda þar sem það á við að uppfæra krónutölufjárhæð við launaafgreiðslu fyrir júlí ár hvert. Jafnframt getur fjármála- og efnahagsráðherra tekið ákvörðun um að hækka launin hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir í júní.

Með öðrum orðum verður venjulegi gangurinn í þessu sá að í júlí munu þeir aðilar sem heyra undir lögin fá hækkun á sínum launum til samræmis við þetta viðmið meðaltal reglulegra launa starfsmanna ríkisins frá síðasta ári. Hins vegar er gert ráð fyrir því að slík hækkun geti orðið í upphafi árs ef sérstök rök mæla með því. Við gætum þá séð fyrir okkur í því samhengi t.d. að samið hefði verið við opinbera starfsmenn upp úr miðju ári og það lægi fyrir hvað kjarasamningar geymdu í þeim efnum fyrir komandi ár. Þá gætu verið gild rök fyrir því að tekin væri ákvörðun um að áætluð hækkun kæmi til framkvæmda strax 1. janúar þannig að menn þyrftu ekki að bíða eftir hækkuninni fram til 1. júlí. Eins getur maður séð fyrir sér að í þessu efni séu menn öruggu megin við girðinguna, hækki ekki meira en svo að það skapist hætta á að Hagstofan komist að niðurstöðu um að reglulegu launin hafi hækkað minna en menn áætluðu.

Með þessu fyrirkomulagi er lagt til að launin geti hækkað tvisvar á ári svo að launahækkanir þessara aðila verði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma en ef hækkunin yrði aðeins einu sinni á ári.

Einnig er lagt til að nokkrir aðilar falli undir ákvæði kjarasamninga og viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.

Samkvæmt 1. gr. laga um kjararáð var það verkefni ráðsins að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, sendiherra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherrann sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga við forsetaritara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Einnig ákvað ráðið laun og starfskjör nefndarmanna yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála sem eru í fullu starfi.

Hæstv. forseti. Með frumvarpinu er lagt til:

1. Að laun forseta Íslands, þingmanna, ráðherra, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð í júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

2. Að laun dómara, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara og saksóknara verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð á mánuði og þar af föst krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir. Þau séu síðan endurákvörðuð í júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Sú leið að ákveða fasta krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir er ætluð til þess að taka tillit til lífeyrisskuldbindinga B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ef launin yrðu ákveðin í einni fastri krónutölufjárhæð myndi það hafa í för með sér vandkvæði við að áætla breytingar á réttindum í sjóðnum sem leiðir af því að þar er fyrst og fremst miðað við dagvinnulaunin. Ef menn steypa þessu öllu saman í eina tölu getur það leitt til töluvert mikils útgjaldaauka fyrir ríkissjóð vegna skuldbindinga í B-deildinni án þess að það hafi verið í sjálfu sér neitt sérstakt tilefni til að stórauka réttindin við þessar breytingar. Af þeirri ástæðu er frumvarpið þannig byggt upp að menn gera greinarmun á þessu og það er fylgt sömu viðmiðum og hafa gilt í úrskurðum kjararáðs.

3. Að laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

4. Að laun og starfskjör tveggja skrifstofustjóra sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga verði ákveðin af fjármálaráðherra með hliðsjón af kjarasamningi þeim sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir.

5. Að laun og starfskjör sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.

6. Að ákvörðun kjara biskups Íslands, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar ef um það fyrirkomulag semst á milli ríkis og þjóðkirkjunnar.

Einnig vil ég nefna að löggjafinn hefur í nokkrum tilvikum ákveðið aðra framkvæmd á launaákvörðun tiltekinna embættismanna sem eðlis starfsins vegna njóta sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Rökin fyrir þeirri skipan eru að ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um launakjör viðkomandi. Um kjör þessara embættismanna hefur því verið fjallað í sérlögum um viðkomandi embættismenn. Þessir embættismenn eru nú ríkissaksóknari, en hann nýtur sömu lögkjara og hæstaréttardómari, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis. Forsætisnefnd Alþingis ákveður laun þeirra. Ekki er gert ráð fyrir breytingum hvað þá embættismenn varðar.

Að lokum vil ég nefna að þær krónutölufjárhæðir sem fram koma í frumvarpinu taka mið af síðustu úrskurðum kjararáðs um viðkomandi starf.

Í skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs segir að ef laun þeirra sem heyra undir ráðið haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018 verði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins setti og metin hafa verið á bilinu 43–48%. Þegar menn lögðu mat á þetta í upphafi þessa árs sögðu menn sem svo: Haldi úrskurðir kjararáðs sér óbreyttir út árið 2018 er kjararáðshópurinn kominn á línu, hann ferðast þá á sömu línunni og gert var ráð fyrir í rammasamkomulaginu frá 2013 um 43–48%. Hins vegar er rétt að fram komi að launaþróun innan kjararáðshópsins er mismunandi. Í ljósi þessa er í frumvarpinu lagt til að kjör hópsins verði næst tekin til skoðunar þann 1. júlí 2019. Við ætlum sem sagt að bíða með frekari hækkanir á þeim sem frumvarpið fjallar um fram á mitt næsta ár. Það mun enn frekar auka líkur á því að sátt geti tekist um launaþróun þessa hóps.

Ég vek athygli aftur á því að sá starfshópur var með beinni aðild aðila vinnumarkaðarins og það var eingöngu fulltrúi ASÍ sem gerði fyrirvara við niðurstöðu skýrslunnar. Starfshópurinn sagði sem sagt að ef menn myndu bíða með frekari launahækkanir fram undir lok árs 2018 væru menn komnir á svipaða línu hvað launaþróun varðar og aðrir hópar, en þrátt fyrir allt er hér lögð til frekari frysting fram til 1. júlí á næsta ári. Það er gert í ljósi þess að innbyrðis kjaraþróun kjararáðshópsins er dálítið breytileg og það þykir afar mikilvægt að ákvarðanir um frekari launahækkanir þeirra sem eru í þessum efstu lögum stjórnkerfisins verði ekki til þess að valda frekari spennu á viðkvæmum tímum í kjarasamningum á bæði almennum og opinberum vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.