149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

samkomulag Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og farendur.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þátttöku Íslands í alþjóðasamþykkt um farendur. Sú samþykkt byggir á umræðu sem varð fyrir tveimur árum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þegar sérstakur leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna samþykkti svokallaða New York-yfirlýsingu um málefni flóttafólks og farenda. Í kjölfarið var farið að vinna að tveimur samþykktum, annarri um málefni flóttafólks og hinni um málefni farenda og sú yfirlýsing eða samþykkt sem er til umræðu í Marrakesh núna snýr að farendum. Það er talið að í heiminum séu um 258 milljónir farenda og þeir hafa aldrei verið fleiri. Eins og ég sagði er samþykktin sem nú er til umræðu unnin á grundvelli þeirrar yfirlýsingar.

Hv. þingmaður spyr hvar þetta mál verið til umræðu. Það hefur annars vegar verið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnar og hins vegar verið kynnt utanríkismálanefnd Alþingis og var síðast kynnt þar í júnílok á þessu ári. Utanríkismálanefnd hefur því verið haldið upplýstri. Það er afstaða íslenskra stjórnvalda að samþykkja þessa samþykkt, styðja málið, enda er ekkert í samþykktinni sem eru ekki innan núgildandi lagaramma og framkvæmdar hans á Íslandi.

Lokaútgáfa hennar, eins og hún kemur fyrir þingið í Marrakesh, kallar ekki á lagabreytingar á Íslandi. Þátttaka í þeirri samþykkt er í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um stuðning við mannréttindi og núgildandi framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda og yfir þetta hefur verið farið af dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Ísland mun hins vegar fylgja fordæmi Danmerkur, Noregs, Bretlands og fleiri ríkja og árétta túlkun Íslands á samþykktinni sérstaklega, sem er m.a. það að ítreka að við teljum ekki að samþykktin hafi þau áhrif að breyta þurfi lögum á Íslandi. Mikilvægt er að hvert ríki hafi sjálfdæmi um eigin innflytjendalöggjöf og stefnu í málefnum innflytjenda, enda teljum við að samþykktin feli það í sér.