149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

samkomulag Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og farendur.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að biðja mig ekki að svara fyrir Evrópusambandið því að það get ég bara hreinlega ekki gert. En ég get svarað fyrir þau gildi sem núverandi ríkisstjórn aðhyllist og hafa verið við lýði þegar kemur að stefnu Íslands í þessum málum, sem er einmitt að fylgja því sem hefur verið samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna allt frá því að mannréttindayfirlýsingin var samþykkt. Hún er 70 ára í dag, líklega mikilvægasta yfirlýsing sem hefur verið samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að fallast á þann skilning að mannréttindi séu algild. Það er í raun algjörlega stórkostlegt að það hafi náðst saman um þá yfirlýsingu á sínum tíma. Ég er ekki viss um að það næðist saman um slíka yfirlýsingu í dag. Þessi samþykkt um farendur byggir einmitt á þeim grunngildum sem við höfum haldið í heiðri í okkar 100 ára sögu sem snúast um lýðræði, sem snúast um mannréttindi og sem snúast um fjölbreytni og að fagna því að á Íslandi séu nú töluð 100 tungumál ekki eitt eins og var fyrir 100 árum.

Það að þessi samþykkt sé ekki lagalega bindandi kemur ekki í veg fyrir að hver stjórnvöld fari yfir sína túlkun á samþykktinni. Það er alsiða og kemur fram í þeirri fréttatilkynningu, (Forseti hringir.) sem birt var á vef utanríkisráðuneytisins, að það mun Ísland líka að gera. Mér finnst hins vegar rétt að árétta það sem kom fram í mínu fyrra svari, þessi samþykkt kallar ekki á lagabreytingar hér á landi en hún snýst um að tryggja réttindi hóps sem hefur aldrei verið fjölmennari og á að njóta eðlilegra mannréttinda.