149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

framkvæmdir við Arnarnesveg og um stefnumörkun í samgöngumálum.

429. mál
[15:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu fyrirspurn og tækifærið til að ræða um þennan mikilvæga veg. Ein af spurningum hv. þingmanns er af hverju það hafi dregist svo mjög að laga hann og dragist nú enn frekar. Stóra svarið er að Arnarnesvegurinn og áform þar um hafa ekki dregist neitt meira en mörg önnur áform hringinn í kringum landið, ekki neitt. Það er hins vegar ekki ásættanlegt að þau dragist enn frekar og kem ég aðeins betur inn á það á eftir.

Varðandi þá yfirlýsingu hv. þingmanns að íbúar á þessu svæði, þessu fjölmennasta svæði landsins, upplifi að þeir fái lítið af því fé sem útdeilt sé til samgöngumála, er rétt að rifja upp að enn er í gildi samningur sem gerður var milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu 2012, þó að það hafi orðið að samkomulagi í samskiptum ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. SSH og ríkisins, að nauðsynlegt sé að taka upp þann samning. Ef ég man rétt sátu fulltrúar flokks hv. þingmanns annars vegar í borgarstjórn, jafnvel sem borgarstjóri eða staðgengill hans á þeim tíma, og hins vegar í ríkisstjórn. Sá samningur snerist um að hér yrði ekki farið í neinar meiri háttar framkvæmdir í tíu ár, þ.e. á árunum 2012–2022, gegn því að ríkið greiddi 1 milljarð til almenningssamgangna. Við þann samning hefur ríkið staðið. Við ætlum hins vegar að rjúfa hann einhliða með því að hefja framkvæmdir árið 2019. Það getur glatt hv. þingmann. Það getur verið að upplifun almennings hér á svæðinu sé einmitt þessi, en hún er grundvölluð á þessu samkomulagi, sem almenningur þyrfti þá að spyrja sveitarstjórnirnar á svæðinu um, þ.e. af hverju þær gerðu svona samning til tíu ára.

Staðreyndin er hins vegar sú að unnið hefur verið við Arnarnesveg undanfarin ár. Búið er að klára þann hluta vegarins sem nær frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Eins og hv. þingmaður kom inn á er kaflinn frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut eftir, en þar hefur m.a. verið ágreiningur milli sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar og Kópavogs, um nákvæma útfærslu á því hvort þarna eigi að vera mislæg gatnamót eða ekki. Það er eitt af því sem valdið hefur seinkunum á framkvæmdum.

Tillaga að samgönguáætlun gerði ráð fyrir fjárveitingu að fjárhæð 1,5 milljörðum til verksins á árunum 2024–2028, sem sagt á næsta fimm ára tímabili eftir fyrstu fimm árin, sem dugar vel til að klára þessa framkvæmd. Þegar unnið var að gerð áætlunar um framkvæmdir sem fjármagnaður verða með veggjöldum, sem hv. þingmaður kom inn á, kom fram að þessi framkvæmd er einmitt ein af þeim sem koma mjög vel til álita í því efni. Þannig verður vonandi hægt að flýta framkvæmdum við þennan vegarkafla umtalsvert. Ég vona svo sannarlega að það takist en það er auðvitað háð því að samgönguáætlun klárist í þinginu.

Varðandi stefnumörkun í samgöngumálum, hvort hún endurspegli að mörg fjölmennustu sveitarfélög landsins séu á suðvesturhorninu, tel ég mikilvægt að stefnumótun í samgöngumálum endurspegli áherslur sveitarfélaga á suðvesturhorninu, sem og auðvitað sveitarfélaga annars staðar á landinu. Hafa nokkur skref verið stigin í þá átt á því eina ári sem ég hef verið í ráðuneytinu. Í september sl. undirritaði ráðherrann fyrir hönd íslenska ríkisins, og borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu fyrir hönd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, viljayfirlýsingu um viðræður um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Miðað var við að niðurstöður viðræðnanna yrðu hluti af langtímaáætlun ríkisins til ársins 2033, næstu fjármálaáætlun frá 2020–2024 og fjárfestingaráætlana sveitarfélaganna með fyrirvara um samþykki Alþingis og viðkomandi sveitarstjórna.

Í viljayfirlýsingunni segir að forgangsröðun, fyrirkomulag fjármögnunar og útfærsla verkefna verði unnið í sameiginlegum verkefnishópi. Horft verði á alla samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu og tengingar við höfuðborgarsvæðið í heild sinni. Til grundvallar þessu voru m.a. lagðar fram tillögur stýrihóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2018. Þar er þessi tíu ára samningur, sem ég minntist á áðan, um tilraunaverkefni um bættar almenningssamgöngur, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015–2040, Höfuðborgarsvæðið 2040, sem er sýn Vegagerðarinnar, og önnur gögn sem gagnast viðræðunum. Stýrihópurinn sem vann að verkefninu skilaði útfærðum tillögum í nóvember sem nú þegar er búið að kynna fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þingsins í kjölfarið og er þar nú til umfjöllunar. Þar á m.a. að taka á hvenær borgarlínan geti hafist og almenningssamgöngurnar á árunum 2019 og 2020 og síðan samkomulag um að samningurinn frá 2012–2022 verði tekinn upp, sem hefur valdið því að framkvæmdir í stofnbrautum á þessu svæði hafa verið litlar.