149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

námsgögn fyrir framhaldsskóla.

407. mál
[16:46]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að vekja athygli á þessu og ráðherranum líka. Það er auðvitað algjört grundvallaratriði að öll sú stefnumörkun sem fer nú fram í ráðuneytinu miðist að því að auka fjölbreytni og auka framboð af mismunandi námsgögnum. Af því að hæstv. ráðherra kemur inn á grunnskólann þá langar mig að nefna að við erum algjörlega sér á báti hvað varðar miðstýringu á útgáfu námsgagna til grunnskóla.

Ef við berum okkur saman við löndin í kringum okkur, hvort sem það eru Vestur-Evrópuþjóðir eða Norðurlöndin, hafa þau sama meginmarkmið og við að leiðarljósi, jafnrétti til náms og aðgengi nemenda í skyldunámi að ókeypis námsgögnum. Þrátt fyrir að þessi lönd hafi nákvæmlega það sama að leiðarljósi þá hafa þau náð þeim árangri að vera með mun betra framboð og meiri fjölbreytni í námsgögnum. Það er eitthvað sem við verðum að horfa til og það á auðvitað við um öll skólastigin.