149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

námsgögn fyrir framhaldsskóla.

407. mál
[16:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög gagnlegar umræður og margt sem hefur komið hérna fram sem ég vil ræða um. Í fyrsta lagi ætla ég að nefna það er varðar lesblinduna. Ein af ástæðum þess að við erum að stórauka samstarfið við leikskóla og grunnskólastigið er lesblindan vegna þess að hægt er að sjá það ansi snemma á námsferlinum í hvað stefnir. Þess vegna þurfum við að hlúa betur að snemmtækri íhlutun til að aðstoða þá nemendur fyrr á sínum námsferli. Það sem kemur líka fram er að þau börn sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga líka við ákveðnar áskoranir að etja og þess vegna þurfi að koma að því máli mun fyrr.

Varðandi vinnuhópinn sem ég nefndi og er að störfum til að bæta námsgagnagerð er verið að einblína á fjölbreytni og stafræna útgáfu. Og umtalsvert samráð á sér að sjálfsögðu stað við kennara.

Hér var íslenskan nefnd og að þar ætti að forgangsraða einmitt til þess að styðja við námsgagnagerð og það er einmitt verið að gera. Þeir einkaaðilar sem gefa út námsgögn fá einmitt þennan stuðning, þ.e. 25% endurgreiðslu. Þetta smellpassar í raun og veru við það sem var nefnt hér fyrr í umræðunum. Við erum að sjálfsögðu að hlúa að íslenskunni. Sú þingsályktunartillaga sem ég mun mæla fyrir, vonandi í lok vikunnar eða byrjun næstu, er einmitt um þessa þætti.

Mér fannst mjög ánægjulegt að þingmenn komu inn á kennsluefnið, en til gamans má geta að verkefni Viðskiptaráðs Íslands, sem átti sér stað, var vinningstillagan sem heitir Skilvirkt lærdómssamfélag. Hugmyndin gengur út á að stórefla aðgengi að námsgögnum og ráðuneytið er einmitt að vinna með þeim hópi til að efla það. Þetta yrði þá tímamótagagnagrunnur sem allir hefðu aðgengi að námsefni og þá væru menn farnir að deila því. Þetta er að sjálfsögðu allt á íslensku.