149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

áfangastaðaáætlanir fyrir landshlutana.

406. mál
[17:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um hvernig við ætlum að nýta áfangastaðaáætlanir landshlutanna og vil ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að vekja máls á því mikilvæga verkefni. Ég held að við þurfum að ræða miklu meira um þessar áætlanir og þær þurfa að fá miklu meiri almenna kynningu. Við höfum bæði í þingsal og víða annars staðar í samfélaginu rætt hvað þær eru mikilvægar, en eigum samt kannski erfitt með að koma umræðunni á mannamál þannig að við áttum okkur öll á því til hvers við ætlum nota áætlanirnar. Mín upplifun eins og er er að þarna séum við með ákveðið tæki til að samhæfa og ná heilu landshlutunum saman í að vinna í sömu átt en lykilatriðið til þess er að markaðsstofurnar og þeir sem eiga að leiða vinnuna hafi fjármagn til þess.