149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta virðast þá vera gögn og upplýsingar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra og ráðuneyti hans hafa ekki haft undir höndum þegar málið var flutt í haust. Þegar maður stendur hér sem óbreyttur þingmaður veltir maður því fyrir sér á hvað maður eigi að treysta í þessari umræðu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þetta nefnt í umræðu af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar, að þetta sé vandamál í greininni. Hinu hefur ítrekað verið haldið fram, m.a. af hálfu hæstv. ráðherra, að þetta sé ekki stærðartengdur vandi, þetta hafi vissulega með mismunandi útgerðarflokka að gera en ekki stærð.

Það leiðir hugann að öðru. Í rökstuðningi hv. þingmanns er ítrekað verið að vísa til versnandi afkomu greinarinnar og það er kannski undirliggjandi ástæða þess að hér er verið að breiða yfir. Þetta hefur ekkert með það að gera að færa gjaldtöku nær í tíma. Þetta hefur allt með það að gera að ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að lækka veiðigjöldin út af verri afkomu eða versnandi afkomu greinarinnar. Þá veltir maður því svolítið fyrir sér. Þegar við horfum á fyrstu 11 mánuði þessa árs hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða hækkað um 20%. Það er ekki að sjá í viðskiptum sjávarútvegsfyrirtækja, hvort heldur er með veiðiheimildir eða eignarhluti í sjálfum sér, að neinn bilbug sé þar að finna eða ótta við afkomu greinarinnar. Þvert á móti sjáum við viðskipti í áður óþekktum hæðum þegar að þessu kemur. Það leiðir hugann að því að kannski hafi þessi meinti afkomuvandi fyrst og fremst með það að gera að greinin var jú í sex vikna verkfalli á síðasta ári og það er kannski ekkert skrýtið að það hafi haft einhver áhrif á afkomu sjávarútvegsins í heild sinni.

Það er þá kannski spurning mín til hv. þingmanns: Er það hlutverk ríkisvaldsins að bregðast við afkomutapi vegna verkfalla með því að ráðast í lækkun veiðigjalda?