149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég man rétt var fiskveiðistjórnarkerfið sett á sirka 1984. Það er ekki óendanlega langt síðan. Þá var útdeiling veiðiheimilda með allt öðrum hætti en nú er. En það er ekki út af því að þeim veiðiheimildum hafi verið útdeilt út í það óendanlega heldur hafa ýmsir bætt við sig veiðiheimildum með því að kaupa þær á þeim tíma sem liðinn er, sem eru tæp 30 ár eða hvað það nú er. Ég sé því ekki alveg hvernig þetta fer inn í þessa hugsun hv. þingmanns um óendanleikann. Árið 2013, ég hef tekið það dæmi, héldu margir sem voru við stjórnvöl þá að þeir væru að koma í veg fyrir samþjöppun með þá ákvörðun veiðigjalds sem þá var. En það tókst ekki, síður en svo, hún hefur aldrei verið meiri og mun verða mjög mikil núna, örugglega í kjölfarið á þessari ákvörðun, óttast ég.

En það var annað sem mig langaði aðeins til að spyrja hv. þingmann út í, af því að hann spurði áðan einn hv. þingmann út í hagsmunatengsl sín í sjávarútvegi. Nú er það engin launung að við erum með útgerðarmenn á þingi núna og höfum lengi haft. Við erum með kennara, við erum með rithöfunda, við erum með bændur, sem betur fer. Við erum með fólk úr atvinnulífinu. Spurningin er: Finnst hv. þingmanni það óæskilegt að hér séu einstaklingar á þingi sem gætu verið fulltrúar ýmissa stétta í landinu? Ég get bætt við forriturum og einhverjum slíkum. Er það af hinu vonda að hér séu sem sagt menn inni sem eru með þau tengsl? Eiga þeir þá ekki að taka þátt í ákvörðunum sem við tökum hér? Eiga bændur ekki að tala um samning þeirra? Eiga rithöfundar ekki að tala um lægra þrep virðisaukaskatts eða styrk til útgáfu? Eiga kennarar ekki að tala um menntastefnu? Hér hafa líka verið formenn stórra (Forseti hringir.) launþegasamtaka. Voru þeir þá vanhæfir til að taka til máls um þau mál?