149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Smá lausn hér í lok umræðunnar, en í 1. gr. þessa frumvarps er sagt að veiðigjald sé lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir o.s.frv. En í fjármálaáætlun erum við einmitt með ófjármagnað hafrannsóknaskip sem hæstv. ráðherra hefur verið að leita logandi ljósi að peningi fyrir. Það er upp á 3,5 milljarða. Það er búið að samþykkja þingsályktun um það, komnar 500 milljónir á fjárlög 2019 fyrir það verkefni. Að óbreyttu hefðu veiðigjöldin verið um 4 milljörðum hærri og það dugar fyrir hafrannsóknaskip. Arðgreiðslan, þessir 23 milljarðar sem er verið að tala um, eru sex hafrannsóknaskip.

Mig langaði aðeins að pæla í því hvernig stjórnarmeirihlutinn rökstyður þetta ef tilgangur frumvarpsins er m.a. að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, en það vantar pening fyrir hafrannsóknaskip og það er verið að leggja til lækkun á veiðigjöldum upp á meiri pening en það kostar að smíða heilt nýtt hafrannsóknaskip.