149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Já, ég held að þörf væri á þessu þrátt fyrir að við ykjum við fjárframlög til NPA. Við höfum því miður þegar dæmi um það að einstaklingar þurfa slíka þjónustu þrátt fyrir að vera ungir að aldri. Það geta komið upp tilvik, eins og raunar kom fram fyrir nefndinni, m.a. þar sem er mjög strjálbýlt, þar sem mjög erfitt er að koma þjónustu að og þess háttar, þar sem þessi heimild þarf að vera fyrir hendi. Eins og kom fram, m.a. hjá fulltrúum ráðuneytisins fyrir nefndinni, erum við þegar með nokkur slík dæmi þar sem einstaklingar hafa búsetu á dvalarheimilum, m.a. úti á landi, með einhvers konar undanþágu frá ráðuneytinu án skýrrar lagaheimildar. Frumvarpinu er í raun ætlað að bæta úr því.

Ég held að ég og hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að það sé verkefni okkar allra að vinna að því að auka við það fjármagn sem fer í NPA-samningana. Ég held að við getum verið algjörlega sammála um það. Og ég held að ég og hv. þingmaður trúum því bæði að með tíð og tíma verði það úrræði sem fleiri og fleiri munu njóta. En það á bara ekki við í öllum tilvikum og þess vegna held ég að þessi heimild sé mikilvæg.