149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar, dvalarrými og dagdvöl. Frumvarpið gengur skýrlega gegn þeirri grunnhugsun að tryggja eigi öllu fólki sjálfstætt líf. Lögð er til grundvallar óbreytt hugmyndafræði um stofnanavæðingu í stað þess að unnið sé að þróun fjölbreyttari búsetuvalkosta fyrir eldra fólk og einstaklinga með fötlun.

Ég geri mér grein fyrir því og það kom fram í máli hv. þingmanns sem mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans að það væri ekki markmið að auka stofnanavæðingu. Ég get tekið undir það, ég held að það sé ekki markmiðið en ég tel að það verði afleiðingin. Undir það taka hagsmunaaðilar eins og t.d. Öryrkjabandalagið, að það verði afleiðing þess að opna þetta úrræði fyrir yngri en 67 ára.

Kjarni hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf er að allt fatlað fólk og aðrir þeir einstaklingar sem þarfnast aðstoðar við athafnir daglegs lífs eigi rétt til að taka ákvarðanir um líf sitt til jafns við aðra.

Kveðið er á um skyldu ríkja til að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líf í 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn byggist á mannréttindanálgun á fötlun sem felur í sér skyldu samningsaðila til að tryggja öllu fötluðu fólki réttindi til jafns við aðra. Mannréttindanálgun á fötlun byggist á félagslegri sýn sem felur í sér að vangeta samfélagsins til þess að laga sig að margbreytileikanum, sem hið eðlilega form mannlegrar tilvistar, er í raun það sem skapar fötlunina. Mannréttindanálgun á fötlun felur einnig í sér að samfélagið, sem ber að laga sig að fjölbreytileikanum, á ekki að spyrja hvað sé að einstaklingnum heldur hvað samfélagið þurfi að gera til þess að viðkomandi einstaklingur geti notið réttar síns.

Það er því skylda samfélagsins alls að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líf. Mannréttindabarátta fatlaðs fólks hefur m.a. falið í sér niðurbrot á stofnunum sem hafa í gegnum tíðina kúgað fólk til að lifa eftir hagsmunum stofnana, ekki eftir vilja fatlaðs fólks. Í þessu máli er verið að ganga þvert gegn þessu því í frumvarpinu felst, í raun, að svar kerfisins verði áfram og jafnvel frekar en hefur verið, að stofnanavista fatlað fólk. Þótt það sé ekki markmiðið þá er það afleiðingin.

Í drögum að nýrri heilbrigðisstefnu er lítið fjallað um skilgreiningar hvað varðar hjúkrunarrými, dvalarrými eða dagdvalir og flokkun þeirra í samræmi við þarfir og aðstæður þeirra hópa sem í hlut eiga. Á þetta bendir Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni og gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið. Þá telja Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, í sinni umsögn, ekki nægilega tryggar forsendur til þess að hægt sé að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir.

Þetta mál dregur fram þörfina á algerlega nýrri hugsun innan kerfisins sem í ljósi langra biðlista annar ekki þjónustuþörf. Í því samhengi verður íslenskt samfélag að fara að taka alþjóðlegar skuldbindingar sínar alvarlega, í þessu tilviki að tryggja öllu fötluðu fólki sjálfstætt líf.

Notendastýrð persónuleg aðstoð hefur t.d. sannað sig hér á landi en á meðan opinberir aðilar beita enn kvótasetningu á slíka þjónustu er stofnanavæðing sem þessi einungis rökrétt viðbragð við stöðunni.

Minni hlutinn telur því þörf á nýrri heildarsýn í málunum sem byggist á mannréttindanálgun á fötlun og áherslubreytingar í öldrunarþjónustu þar sem sjálfræði einstaklinga er tryggt í raun og horfið af braut áframhaldandi stofnanavæðingar. Það verður ekki gert með þeim hætti sem lagt er upp með hér.

Þá bendir minni hlutinn á að biðlistar inn á hjúkrunarheimili, og stofnanir sem veita þjónustu í dvalarrýmum og dagdvöl, eru nú þegar langir og munu lengjast enn frekar verði frumvarpið samþykkt. Þá myndi sú tilhögun sem lagt er upp með í frumvarpinu takmarka enn frekur rétt þeirra sem eru 67 ára og eldri og hafa nú þörf fyrir þjónustuna.

Ég vil ítreka það að ef við ætlum að taka skref í átt að því að opna fyrir það að yngri en 67 ára fari inn á stofnanir þá hefði ég talið skynsamlegast að taka kvótann af notendastýrðri persónulegri aðstoð fyrst. Það sé þá í boði fyrir alla sem raunverulega kjósa að nýta sér það úrræði og svo væri hægt að opna á stofnanadvöl fyrir þá einstaklinga sem hreinlega vilja ekki eða geta ekki nýtt sér notendastýrða persónulega aðstoð sem fyrsta valkost.

Að framangreindu virtu leggst minni hlutinn gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson og Guðmundur Ingi Kristinsson.