149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni ágæta ræðu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að ég og hv. þingmaður séum í öllum grundvallaratriðum sammála í þessum málaflokki þó að við höfum ekki borið auðnu til að vera á sama nefndarálitinu í þetta skipti. En það er út af fyrir sig allt í lagi. Mér finnst hins vegar að í máli þingmannsins komi fram ákveðin sýn á að hægt sé að sleppa því að samþykkja þetta frumvarp, að það sé raunverulegur valkostur að gera ekki neitt í stöðunni og trúa því að þau mál sem eru uppi leysist einhvern veginn. Það eru þarna úti í samfélaginu, og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég, einstaklingar sem nota þegar þessa þjónustu, eru þegar í þörf. Við vitum að þau úrræði sem ég og hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að auka munu ekki koma á morgun eða hinn. Þau munu ekki koma innan þess tíma sem þessir einstaklingar munu þurfa á því að halda.

Mig langar því að inna þingmanninn eftir því hvort hann sé ekki sammála mér í því að þó að við getum verið sammála um stefnuna sé raunveruleg þörf á að búa þannig um hnútana að þeir einstaklingar, a.m.k. þeir sem þegar eru komnir í þessi úrræði, séu þá ekki nánast upp á náð og miskunn ráðuneytisins eða þeirrar stofnunar sem þeir búa á komnir, þ.e. að lagastoð sé fyrir þeirri búsetu.