149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um veiðigjöld. Ég er algjörlega ósammála síðasta ræðumanni um að ekki hafi verið haft fullt samráð við alla aðila um þetta mál. Við héldum 13 fundi, það komu 100 gestir fyrir nefndina og samráðið var mikið, talað við alla og minni hlutinn fékk öll þau tækifæri sem þurfti. Það komu engar breytingartillögur í nefndinni og kom fram í greinargerð með áliti minni hlutans að hann gerði engar athugasemdir við þetta.

Ég segi að við séum að afgreiða niðurstöðu sem sátt er um. Gjöldin eru há miðað við afkomu greinarinnar eins og staðan er í dag, en það er reynt að koma til móts við það eins og formaður nefndarinnar sagði áðan, verið að veita afslætti sem hækka mjög verulega frá síðustu lögum.

Ég segi já við þessu frumvarpi.