149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um veiðigjöldin. Þetta frumvarp sem liggur frammi byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að endurskoðun laga um veiðigjöld þurfi að hafa það að meginmarkmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu fyrirtækjanna. Gögnin sem eru notuð eru færð nær í tíma og reiknistofn veiðigjaldsins endurspeglar væntanlega afkomu betur og hætt verður að byggja á Hagtíðindum. Nú er gert ráð fyrir að gögnin sem verða lögð til grundvallar verði byggð á gögnum frá ríkisskattstjóra og þá skattskýrslum fyrirtækjanna. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að við séum að lækka veiðigjöldin og að afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna sé að hækka. Þá getum við vonandi líka tekið undir að það sé raunin og því megi það verða til þess að skila okkur hærri veiðigjöldum til ríkisins, ekki satt?