149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:55]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um hvernig við viljum taka umræðu um þetta frumvarp. Við þurfum að vanda okkur. Það eru margir sem eru að horfa á þessa umræðu, konur sem hafa m.a. átt í erfiðum félagslegum aðstæðum og konur sem hafa í þessum örfáu tilfellum farið í þungunarrof seinna, sem eru að hlusta, sem hafa tekið þessa erfiðu ákvörðun byggða á núgildandi lögum þannig að ég ætla að biðja okkur öll um að vanda okkur í umræðunni.

Hv. þm. Inga Sæland fór hér mikinn um konur, að frumvarpið gerði lítið úr okkur konum og að hún bæri sérstaka virðingu fyrir konum. Mér finnst hún einmitt gera lítið úr okkur konum með því að treysta okkur ekki fyrir því að taka þessa ótrúlega erfiðu ákvörðun sjálfar. Það að trúa því að við hoppum á þessa ákvörðun út af einhverjum einföldum erfiðleikum í sambandi eða öðru slíku er fjarstæðukennt. Ég er ótrúlega tilbúin að taka hér umræðuna um það hvar við viljum málefnalega setja þessi skilyrði við sjálfsákvörðunarréttinn. Það á að vera umræða okkar í þingsal. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé einfaldlega — hún kallaði þetta frumvarp andstyggilegt — á móti frumvarpinu í heild sinni eða hvort hún sé til í að taka umræðu um þennan vikufjölda sem mér heyrist hv. þingmanni mest umhugað um. Eins og kom fram áðan eru þessi lög úr sér gengin og breytingar á mörgu öðru (Forseti hringir.) í frumvarpinu sem tengist ekki þessum vikufjölda svo löngu tímabærar.