149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég ber virðingu fyrir konum og, já, ég trúi því að við áttum okkur á því fyrir tólftu viku hvort við erum óléttar eða ekki. Og, já, ég tel þetta andstyggilegt frumvarp og, já, það hefur siðferðilega særandi og bara meiðandi áhrif á mig. Og, já, ég tel þennan tíma, 22 vikur, algjörlega fyrir neðan allar hellur. Og, já, mér finnst lífsréttur barnsins algjörlega fótum troðinn með þessu frumvarpi. Og, já, sjálfsákvörðunarréttur kvenna var fullkomlega virtur árið 2017 þegar engri konu var meinað um að fara í fóstureyðingu.

Það mætti kannski segja: Hvers vegna, hv. þingmaður, þarf að rýmka þennan ramma svona rosalega eins og nú er lagt til að sé gert?