149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og mér kemur svolítið á óvart að hún telji að ég sé að ganga á hennar rétt með minni ræðu. Ég sagði í minni ræðu að ég virti sjálfsákvörðunarrétt konurnar til að taka ákvörðun um eigin líkama. Hv. þingmaður hefur eflaust ekki verið að hlusta. Þannig að ég skil ekki alveg þessa ákveðnu gagnrýni. Ég sagði líka að það væri hennar réttur að taka ákvörðun um að enda líf ófædds barns, hvort sem ákvörðun er tekin vegna fæðingargalla, sjúkdóms eða óvelkominnar þungunar. En ég sagði líka að það væri langt í frá auðvelt fyrir konuna að taka slíka ákvörðun. Þannig að ég mótmæli því sem hv. þingmaður sagði í minn garð hér áðan.

Varðandi mannréttindi hins ófædda barns þá varpaði ég þeirri fyrirspurn fram áðan hvort hið ófædda barn sem er fullþroskað ætti ekki að hafa mannréttindi. Það væri líka fróðlegt að snúa þessu aðeins við og fá skoðun hv. þingmanns á því. Ég varpaði þessu fram sem fyrirspurn. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem er afar mikilvægt að ræða og ég er alveg tilbúinn að setjast niður með hv. þingmanni og fara vel og vandlega yfir það og þar á meðal mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í því samhengi.