149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég ekki að sitja hér eins og einhver á sakabekk út af þeim orðum sem ég hafði hér áðan, alls ekki. Það kann að vera, og nú hefur hv. þingmaður það fram yfir mig að hún er kona og skilur kannski og örugglega tilfinningar kvenna sem þurfa að stíga þessi skref betur en ég. Mér dettur ekki til hugar að halda því fram að ég viti allt um þetta mál frekar en önnur mál sem hér eru á döf á dagskrá þingsins.

En það vill þannig til að lífið kennir manni ýmislegt þó að maður viti ekki allt og maður verður vitni að ýmsu og lífsreynslan er drjúg. En það kann vel að vera að hv. þingmaður hafi meiri og yfirgripsmeiri reynslu af þessum málum en ég og ég ber mikla virðingu fyrir því.

En ég bið hv. þingmann að bera mér ekki á brýn að ég sé að reyna að hengja eitthvert samviskubit um háls þeirra sem þurfa að ganga þennan veg, því fer algerlega fjarri. Það sem ég sagði hins vegar er að menn eiga að vita af öllum kostum. Það er allt annað, hv. þingmaður, allt annað.

Hv. þingmaður getur gert jafn lítið úr því og hún vill að þessi umræða sé þungbær fleirum en þeim sem þurfa að ganga þann veg að fara í fóstureyðingu. Henni er það náttúrlega fullkomlega frjálst. En það fer ekki hjá því hins vegar að umræðan er, eins og ég sagði áðan, jafnframt erfið þeim sem hvorki geta eignast börn, hafa orðið fyrir því að missa börn í móðurkviði, þessi umræða er erfið því fólki. Hafi menn eitthvert óþol gagnvart því verður bara svo að vera.

En ég legg mig yfirleitt eftir því að reyna að komast í samband við skoðanir annarra eins og ég mögulega get (Forseti hringir.) og jafnvel tilfinningar þeirra ef þannig ber undir.