149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í nýafstöðnu viðtali við starfandi formann umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, kristallaðist það sem um ræðir hér. Hann var spurður hvort ekki þyrfti að ræða þessi veggjöld við land og þjóð, ef svo má segja. Hann svaraði því til að þess þyrfti ekki vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að ræða þetta við fullt af fólki. Ég held að þarna hafi hreinlega opnast gluggi og við stöndum fyrir utan, tilneydd að horfa á ríkisstjórnina viðra óhreina þvottinn sinn. Ég held að þetta mál sé of stórt til að sú hreingerning fari af stað fyrir luktum dyrum, hún þarf að fara fram fyrir opnum tjöldum.

Ég legg til að ríkisstjórnarflokkarnir klári þetta mál, átti sig á því á hvers forræði það er, reyni að komast að sameiginlegri stefnu, beri smávirðingu fyrir samstarfsaðilum á þingi eða samþingsmönnum í stjórnarandstöðu, en öllu meiri virðingu fyrir þjóðinni allri — dragi þetta mál til baka, vinni það með sóma með stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) á næstu vikum og leggi það fram fullklárað og fullkynnt þegar þing kemur saman aftur.