149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að fara aðeins meira út í fjárlagaferlið sem við erum í núna samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þetta eru framkvæmdir upp á tugi milljarða sem verið er að tala um í tillögum að breyttri samgönguáætlun. Venjulega fáum við umsagnir fagaðila eins og fjármálaráðs o.s.frv. sem kynnir fyrir okkur áhrifin sem þetta mun hafa á þjóðarbúið og þjóðhaginn í heild sinni. Með því að gera þetta rétt í lok árs höfum við rosalega mikil áhrif á þjóðarbúið í heild sinni. Hvað gerir þetta fyrir hagvöxt? Væntanlega góða hluti. Hvað gerir þetta við verðbólgu? Ekki hugmynd, væntanlega er það líka þensluhvetjandi.

Þegar viðhöfð eru svona vinnubrögð fer maður að spyrja stóru spurninganna um stöðugleika, festu og gagnsæi sem er grundvöllurinn að lögum um opinber fjármál. Við erum að tala um tugi milljarða til framkvæmda (Forseti hringir.) sem við förum með fram hjá ferlinu sem við bjuggum til í (Forseti hringir.) þeim lögum.