149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er algerlega sammála hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur. Ég ætlaði ekkert að koma upp aftur. Ég þakka einmitt Katrínu Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, fyrir að stíga fram og segja: Svona er málið.

Ég verð bara að svara Birgi Ármannssyni, hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins: Jú, að sjálfsögðu vil ég ræða samgönguáætlun, bara ekki samgönguáætlun þar sem er búið að þvinga öðru þingmáli í rauninni inn í hana, sem er grundvallarbreyting á gjaldtöku í vegakerfi landsins. Við verðum að fara að átta okkur á að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði að hann skyti málum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef það væru tvær forsendur. Annars vegar að það væri grundvallarbreyting, hann vildi ekki gera það varðandi veiðigjöldin en hann sagði að ef það væri grundvallarbreyting á t.d. fiskveiðistjórnarkerfinu þá væri hann tilbúinn að skjóta málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er annað sem þarf að gerast líka. Það þarf að vera mikil umræða í samfélaginu. Mikil umræða á þingi. Og það verður mikil umræða um þetta mál ef það kemur svona inn í þingið.

Ég er líka alveg tilbúinn til þess, ef það á ekki að fara þessa leið sem er verið að leggja til núna af meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, að við gerum (Forseti hringir.) þetta og getum klárað þetta fyrir jól. Við viljum ræða þetta mál en við viljum ekki gera grundvallarbreytingar í hendingskasti.