149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er á þeirri skoðun að almennt skuli fylgja lögum og vinna eftir þeim. Þegar við fáum ábendingar um það frá þessum aðilum að kannski sé ekki verið að fylgja þessum gömlu lögum í einu og öllu þá hringja bjöllur um að við hljótum að þurfi að breyta þeim.

Mér er ekki kunnugt um að einhver hafi fengið neitun á slíku, nema ef um er að ræða tímamörk. Í greinargerðinni er fjallað um dóm er lýtur að því. En mér finnst það tímaskekkja að kona þurfi að leggja fram umsókn og yfir umsóknina þurfi að fara „þar til bærir aðilar“ — ég ætla að setja það innan gæsalappa — til að leggja mat á það hvort það sé raunverulega best fyrir þá konu sem um ræðir að fara þessa leið.

Þess vegna segi ég: Ég hef skilning á því þegar fólk talar um tímann og spyr: Hvað sjáum við fyrir okkur? Er verið að tala um nauðgun? Fólk segir kannski að konan hafi fyrir löngu átt að vera búin að komast að því að hún væri ófrísk, löngu áður en 12 vikur eða eitthvað slíkt eru liðnar, að þetta eigi ekki að vera neitt vandamál o.s.frv. En það eru samt til dæmi um þessa hluti. Ég held að við í þessum sal gætum aldrei fangað öll þau dæmi og skrifað þau inn í lagatexta.

Að því sögðu get ég ekki séð annað en að það sé í fyrsta lagi einfaldast, í öðru lagi skýrast, og í þriðja lagi samræmist það kannski best stefnu okkar um mannréttindi, að horfa til þess að konan sjálf beri ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni og sé best til þess bær að leggja mat á slíkt, hvort það sé rétta leiðin.