149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vandræðalegt, það er seint liðið á kvöldið og ég er búin að gleyma fyrri hluta spurningarinnar. Það var í sambandi við ráðgjöf, hvort ég teldi að þeim þætti gott … (Gripið fram í: Hvort þær myndu halda áfram að leita sér ráðgjafar.) Já, já, akkúrat, nú þegar það er orðið valfrjálst, svo að segja. Ég veit það ekki að sjálfsögðu, enda held ég að hv. þingmaður sé fyrst og fremst að velta fyrir sér hver tilfinning mín er fyrir því. Ég ímynda mér að sumar konur myndu gera það og aðrar ekki. Það fer væntanlega eftir ýmsum atriðum. Það fer eftir ástæðu þess að þær eru yfir höfuð að íhuga þetta og félagslegum aðstæðum þeirra, umhverfi og væntanlega persónuleika líka, bara eins og með svo margt annað í lífinu.

Stundum tekur fólk gríðarlega erfiðar ákvarðanir eitt og sér og þarf engan annan stuðning. Stundum er gott að hafa hann og sumir geta leitað í þann stuðning heima við eða hjá nánum fjölskyldumeðlimum eða vinum en aðrir hafa hann ekki. Og svo er það væntanlega þannig að einhverjar ástæður sem konur hafa fyrir því að vera komnar inn á þessa vegferð á annað borð, geta verið það flóknar að bókstaflega þurfi slíka ráðgjöf og þá mögulega læknisfræðilega. Aðrar vilja mögulega eitthvað trúarlegs eðlis, þær ástæður eru óteljandi. Ég er ekki viss um að þetta verði eitthvað sem muni falla niður, þ.e. þessi ráðgjöf. Ég geri ráð fyrir að einhverjar muni leita sér slíkrar ráðgjafar.

Hvað varðar tölurnar, hvort einhver hafi hætt við, viðurkenni ég að ég hef ekki hugmynd um það, hef svo sem ekki velt því fyrir mér. Ég get ekki svarað því.