149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er fjallað um alveg stórmerkilegt og gríðarlega mikilvægt mál sem snýst um að tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi, að sjálfsforræði þeirra sé virt. Ég ætla ekki hafa neina skoðun á efni málsins af því að ég tel það mér einfaldlega vera óviðkomandi að nokkurn veginn öllu leyti, en það sem ég get haft skoðun á er hvernig frumvarpið var unnið. Mér finnst nauðsynlegt að koma dálítið að því.

Á blaðsíðu 14, seint og um síðir í frumvarpinu, af því að þetta er mjög viðamikil greinargerð sem fylgir, er kafli 5 um samráð. Samráðskaflinn er upp á einar sjö blaðsíður þar sem safnað var, áður en farið var út í nánari gerð frumvarpsins, umsögnum frá 19 einstaklingum sem og frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Siðmennt, Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni og Landssamtökunum Þroskahjálp, Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Kvenréttindafélagi Íslands og umboðsmanni barna. Síðan þegar frumvarpsdrög drög voru fullmótuð, eins og segir hér, var haft samráð við stóran hóp fagaðila, heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Landssamtökin Þroskahjálp, Félag áhugafólks um Downs-heilkenni, Kvenréttindafélag Íslands, embætti landlæknis og dómsmálaráðuneytið. Einnig voru drög send á nefndarmenn í nefnd um heildarendurskoðun laganna og gefinn kostur á athugasemdum. Svo var þetta birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins. Þar bárust 11 umsagnir frá stofnunum og félagasamtökum og 40 frá einstaklingum. Það voru umsagnir frá dómsmálaráðuneytinu, embætti landlæknis, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni og Landssamtökunum Þroskahjálp sem voru með sameiginlega umsögn, Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Félagsráðgjafafélag Íslands, kaþólsku kirkjunni, Kvenréttindafélagi Íslands, Landspítala, Ljósmæðrafélagi Íslands og umboðsmanni barna. Meðal umsagna frá einstaklingum voru sérfræðingar á sviði kvenlækninga, barnalækninga, heimilislækninga, ljósmæðrum starfandi á sviði fósturgreininga og fullt af sérfræðingum í kynjafræði og stjórnmálafræði og fleiri aðilum. Mér finnst nauðsynlegt að koma því á framfæri hvert samráðið var í þessu.

Til viðbótar við þetta má bæta, sem er ekki í frumvarpinu, að hæstv. ráðherra kom inn til þingflokkanna og kynnti efni frumvarpsins, til að fara mjög vel yfir málið, þannig að allir væru með sameiginlegan skilning á því hvernig málið lá. Ég verð einfaldlega að koma í ræðustól til þess að hrósa nákvæmlega því að fram að þessu hefur verið gríðarlega vel unnið að frumvarpinu. Ég treysti hv. velferðarnefnd og formanni hennar Halldóru Mogensen fyllilega til að halda málinu áfram og halda áfram því faglega starfi sem hingað til hefur skilað sér í hendur alþingismanna. Ég hlakka til að sjá næstu skref málsins og þakka kærlega fyrir.