149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Síðastliðinn mánudag var kynnt hvítbók um framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis. Hún er um margt merkileg þó að ég hafi ekki lokið við að lesa alla skýrsluna og ég hygg að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni fjalla mjög ítarlega um allar þær tillögur. Efnið er viðamikið. Það er eitt sem vekur athygli mína og það er í fylgiriti sem er eftir dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðing og deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Þar bendir hann á hversu umfangsmikið ríkið er á íslenskum fjármálamarkaði og hversu miklir fjármunir eru bundnir í fjármálakerfinu. Í tveimur bönkum 330 milljarðar, í þremur lánasjóðum 120 milljarðar og auk þess er ríkið óbeint eða beint í ábyrgðum fyrir 857 milljarða. Samtals er áhætta ríkisins, skattgreiðenda, okkar allra, u.þ.b. 2.200 milljarðar. Það er verkefni okkar að velta því fyrir okkur hvort sú áhætta sem við höfum ákveðið að leggja á ríkið, leggja á skattgreiðendur með því að binda fjármuni í fjármálakerfinu með þeim hætti sem gert er þjóni þeim hagsmunum sem við eigum að þjóna, sem eru almannahagsmunir, hvort það er ekki rétt ábending sem m.a. kemur fram í nefndri hvítbók að við þurfum að fara að huga að því að losa að eignum. Líkt og Ásgeir Jónsson bendir á, og ég hef einnig gert og margir aðrir, eru það samfélagslegir innviðir sem við ættum (Forseti hringir.) að fara að huga að, losa fjármuni úr fjármálakerfinu og setja þá í samfélagslega innviði.