149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við búum í landi þar sem náttúruöflin geta tekið öll völd hvenær sem er og skollið geta á snarvitlaus veður eins og hendi sé veifað. Forsenda þess að hjálp geti borist þegar slys verða í óbyggðum í dreifbýli á vegum landsins eða til sjós er að fyrir hendi séu örugg fjarskipti. Í svari hæstv. samgönguráðherra um útbreiðslu farsímasambands á landinu kemur fram að 4% landsmanna eru enn án farsímaþjónustu. Við erum komin nálægt því að öll heimili í landinu hafi farsímasamband en enn er verk að vinna. Með sívaxandi ferðaþjónustu er nauðsynlegt að bæta hér úr skák. Þeir gestir sem heimsækja okkur koma margir hverjir frá löndum þar sem náttúran er ekki eins miskunnarlaus og sú íslenska. Mér barst bréf frá einstaklingi sem kemur af ferðaþjónustusvæði þar sem fjögurra tíma ganga er frá staðnum til að ná farsímasambandi. Staðinn sækja hundruð ferðamanna heim á hverju ári og því bara tímaspursmál hvenær eitthvert slys verður. Þá verður að vera hægt að ná í neyðarþjónustu.

Mikið er búið að gera í þeim málum, sérstaklega hefur farsímasamband með nútímasniði batnað á miðunum í kringum landið. Það er gott og veitir sjómönnum öryggi við störf sín. Tíundi hluti hálendisvega yfir 200 m er án farsímasambands og það er nokkuð sem ég tel að verði að leggja áherslu á að bæta. Slys á fólki á vegum eru okkur ákaflega dýr, fyrir þjóðfélagið, og því er nauðsynlegt að hægt sé að kalla til hjálparsveitir sem fyrst.

Því vona ég að í vinnu við aðgerðaáætlanir í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 verði því forgangsraðað ofarlega að hraða uppbyggingu þessarar grunnþjónustu, því að farsímasamband er grunnþjónusta í dag þó að það sé ekki skilgreint þannig í lögum.