149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um Þjóðarsjóð og það er jákvætt að við erum í þeirri stöðu að ræða mál af því tagi. Ég get í meginatriðum verið sammála þeirri grundvallarhugmyndafræði sem liggur að baki slíkum sjóði og birtist í 1. gr. frumvarpsins, markmiðsgreininni, um að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið gæti orðið fyrir. Um leið má auðvitað gera það með margvíslegum hætti og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra velti upp slíkum spurningum í framsögu sinni. Við getum haldið áfram að greiða niður skuldir, eins og við höfum verið að gera undanfarin misseri, og sparað okkur þannig vexti og nýtt þann sparnað í innviðauppbyggingu sem mikil þörf er á. Svo er alltaf spurning hvort ríkissjóður eigi að vera skuldlaus eða hvar mörkin liggja, hversu mikil skuldsetning er æskileg. Ég geri ráð fyrir að hagfræðingar verði ekki allir á einu máli í þeim efnum. Við getum svo sannarlega haldið áfram að byggja upp samfélagslega innviði, sérstaklega þar sem við erum víða komin í skuld. Ég nefni samgöngur og ég nefni félagslega innviði eins og mál þróast þar varðandi örorkulífeyri, ellilífeyri, hjúkrunarheimili sem eru hluti af útvíkkun markmiða með sjóðnum og kemur fram í stjórnarsáttmála. Við getum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, greitt hraðar inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar, en þær voru um 619 milljarðar í árslok 2017 og áætlað er að þær fari í 645 milljarða 2019. Við gætum forinngreitt á þær í meira mæli. Það styrkir ríkissjóð, eins og mun gerast með slíkum sjóði með öðrum hætti. Í því felst ávöxtun.

Nú er áætlað að setja 7 milljarða í forinngreiðslu á ári samkvæmt ríkisfjármálaáætlun og er það sjálfstætt markmið í fjárlögum ársins 2019. Það er vel. Það má segja að árlegur fjármagnskostnaður, vextir á ófjármagnaðri skuldbindingu geti numið árlega 12–13 milljörðum. Við getum nýtt slíka peninga. Maður veltir fyrir sér hvort ekki mætti greiða það hraðar niður, ná ávöxtuninni fram með þeim hætti, spara sér eitthvað af þessum 12–13 milljörðum þannig.

Á því er tekið í greinargerð með frumvarpinu á bls. 16 með ágætisrökum. Ég ætla, virðulegur forseti, að grípa þar niður. Í umsögnum Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins er vikið til stöðu lífeyrisskuldbindinga ríkisins og því er velt upp hvort fjármunum væri betur varið til uppgreiðslu þeirra.

„Jafnframt er bent á möguleg ruðningsáhrif sjóðsins á gjaldeyrismarkaði. Af hálfu síðarnefnda hagsmunaaðilans er auk þess lagt til að fremur verði ráðist í lækkun skatta vegna þess svigrúms sem aukinn arður af orkuauðlindum kann að skapa. Þessu er til að svara, í fyrsta lagi, að ríkisábyrgð á skuldbindingum A-deildar LSR var aflétt eftir uppgjör á deildinni árið 2016. Með ráðstöfunum af hálfu ríkissjóðs, sem þegar eru hafnar og m.a. er gerð grein fyrir í fjármálaáætlun, er gert ráð fyrir að B-deild LSR geti staðið skil á skuldbindingum sínum að fullu. Í öðru lagi, varðandi áhrif á gjaldeyrismarkað, ber að líta til þess að þeim auknu tekjum sem um ræðir hefði að öðrum kosti mögulega verið varið í að greiða skuldir orkuvinnslufyrirtækja, sem eru að miklu leyti í erlendri mynt.“

Þarna speglast að hluta til svar eða rök við þessum spurningum og því víðtæka hlutverki sem slíkum sjóði er ætlað. Þeir eru til margir og mismunandi. Hér hefur mikið verið vísað til norska olíusjóðsins.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar eru áform uppi um stofnun þessa sjóðs og við sjáum það með frumvarpinu þar sem Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins.

Þar kemur jafnframt fram að sjóðurinn verði að hluta til nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina. Ég er hlynntur því, ég held að við eigum að horfa til félagslegra innviða þar sem við erum núna í skuld. Þannig liggur ljóst fyrir að verkefni sjóðsins eru farin að teygja sig umfram þá grundvallarhugmyndafræði og þann tilgang að styrkja ríkissjóð. Það má velta því fyrir sér hvort það þurfi sérstakan sjóð með tilheyrandi regluverki, umsýslu og kröfu um að ávaxta fé, sérstaka fjárfestingarstefnu og sérstaka matsnefnd, eins og kemur fram í sérstökum lagagreinum í frumvarpinu, sem metur það hvort og hvenær ástæða sé til að ráðstafa fé úr sjóðnum, eins og tekið er fram í 7. gr. í frumvarpinu. Þar er kveðið á um matsnefnd, það skuli vera þrír nefndarmenn í matsnefnd samkvæmt tilnefningu Alþingis, þannig að við erum með sérstaka nefnd sem metur aðstæður sem koma upp og hvort megi ráðstafa fé úr sjóðnum.

Því vakna margar spurningar um hvenær ástæða sé til að ráðstafa fé úr slíkum sjóði í stað þess að fara í verkefnin og styrkja ríkissjóð með beinum hætti, eins og fram hefur komið hér og þessar spurningar vekja upp. Hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi að hægt væri að greiða þetta bara beint út til eigenda auðlindanna, heimilanna, eða lækka skatta. Það hefur önnur áhrif, afleidd, til að mynda að efla samkeppnishæfni o.s.frv.

Varðandi framsetningu og tengingu að öðru leyti við skuldir vísa ég til greinargerðar á bls. 10 þar sem segir að Þjóðarsjóðurinn verði færður í efnahagsreikning ríkissjóðs og hafi þannig áhrif á fjárhagslega stöðu. Þar er gert ráð fyrir að hann sé metinn til frádráttar skuldum við mat á skuldareglu samkvæmt 7. gr. laga um opinber fjármál.

Það er mikilvægt þegar kemur að því að meta styrk og traust á íslensku hagkerfi og þar með eflist til að mynda lánshæfi ríkissjóðs. Þótt á ólíkan hátt sé hefur það sömu áhrif og að greiða niður skuldir þegar við metum þetta út frá sjálfbærni og stöðugleika opinberra fjármála sem styrkist þar með.

Þá er mikilvægt að huga að því hlutverki sem slíkur sjóður getur vissulega gegnt í hagstjórn í því augnamiði að byggja upp og viðhalda stöðugleika. Slíkur sjóður getur með réttum umbúnaði unnið með peningamálastefnu, ríkisfjármálastefnu og haft áhrif á gengissveiflur og þannig verið stjórntæki til að veita öryggi og stöðugleika í efnahagsmálum. Í grein sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, ritaði fyrr á þessu ári er fyrirsögnin Stöðugleikasjóður auki samkeppnishæfni Íslands. Í greininni vísar Sigurður í skýrslu sem gefin er út á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þjóðarsjóði, stjórnarhætti og stýringu eigna þeirra og segir að tilgangur slíkra sjóða geti verið nokkrir og nefnir þá úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem geta verið stöðugleikasjóðir, eins og ég kom inn á, sem hafa það markmið að einangra ríkisfjármál og hagkerfi frá sveiflum í hrávöruverði og ytri áföllum. Þetta kemur jafnframt fram í greinargerð með frumvarpinu. Það geta verið söfnunarsjóðir sem hafa það hlutverk að varðveita fjármuni fyrir komandi kynslóðir. Verðmæti af óendurnýjanlegum auðlindum eru þannig fjárfest í verðbréfum. Það er ekkert ósvipað og norski sjóðurinn, en hann er hér títtnefndur og kemur fram í greinargerð og var horft til varðandi umbúnað, regluverk og skipulag á þeim sjóði sem við erum að fyrirhuga að ræða í þessu frumvarpi, þar til, af því að við erum að tala um að byggja upp þennan sjóð, hann verður um 10% af heildarverðmætasköpuninni í landinu á einu ári. Þar nýtir norski sjóðurinn um 3% af sjóðnum í norsku fjárlögunum 2018 sem eru um 18% af heildarútgjöldum fjárlaga þessa árs.

Þetta geta verið þróunarsjóðir sem eru settir á laggirnar til að fjárfesta í innviðum. Þá hafa ríki stofnað sjóði til að eiga fyrir áföllnum lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Eins og ég vék að áðan er það alveg gild spurning að fara í gegnum. Varasjóðir sem taldir eru til gjaldeyrisvaraforða fjárfesta til lengri tíma með það fyrir augum að draga úr mun innlendra og erlendra vaxta þannig að það er afar mikilvægt að við skilgreinum mjög nákvæmlega hlutverk sjóðsins. Það er gert og það er vel.

Hæstv. ráðherra fór yfir að íslenski Þjóðarsjóðurinn er hugsaður sem áfallavörn fyrir þjóðina, t.d. ef upp kemur verulegur afkomubrestur eða óhjákvæmilegt er að grípa til varna gegn áföllum, náttúruhamförum eða annars konar ógnum. Í greinargerð með frumvarpinu eru ólík módel skoðuð og ágætlega farið yfir það sem hæstv. ráðherra gerði í framsögu sinni, þannig að ég ætla ekki að fara frekar í það.

Ég vil minnast á það sem kemur fram á bls. 9 í greinargerðinni. Þar er vísað í lög um opinber fjármál og talað um hlutverk varasjóðs sem skuli vera a.m.k. 1% af heildarfjárheimildum og ætlað til að mæta, af því að við erum að horfa á sjóði sem við höfum til að mæta einhvers konar frávikum í viðfangi ríkisfjármála á hverju ári, frávikum frá launa- og verðlagsforsendum fjárlaga, gengisáhrifum og ýmsum tilfallandi, ófyrirséðum útgjaldamálum og umframgjöldum og getur yfirleitt ekki nýst nema í mjög takmörkuðum mæli fyrir ytri áföll þegar áhrif þeirra eru ekki umtalsverð. Fjárhagslegur viðbúnaður er því ekki þannig séð til staðar til að mæta stóráföllum af öðrum völdum en náttúruhamförum og styður þannig við þau áform.

Ég er alveg á lokametrunum í ræðu minni og vil ítreka að afar mikilvægt er að um slíkan sjóð náist mikil samstaða, umfram mörg önnur mál, myndi ég telja, sem koma til umfjöllunar og umræðu í þinginu, og að umbúnaður sjóðsins sé með þeim hætti að lifi af pólitíska strauma og ríkisstjórnir til langrar framtíðar og sinni þannig ætluðu hlutverki sínu. Fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á það hér og mikilvægt að slík samstaða myndist. Ég held að eitt af því sem liggi fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd sé að stilla upp öllum spurningum, mögulegum og ómögulegum, í kringum umbúnað þessa sjóðs, tilgang og hlutverk og hvernig við tryggjum þetta og þannig er hægt að ná samstöðu um slíkan sjóð sem ég met lykilatriði þegar við klárum þetta mál.

Virðulegur forseti. Þetta er stórt og ekki einhlítt mál og um leið afar mikilvægt og getur verið mjög jákvætt. Ég ítreka í lokin að nauðsynlegt er að rýna vel til að sjóðurinn nái tilgangi sínum og hlutverkið sé afar skýrt og skilgreint þegar við samþykkjum þetta mál. Ég árétta það sem ég sagði í upphafi, það eitt og sér að við skulum vera á þessum tímapunkti í þjóðfélagi okkar að ræða slíkan sjóð inn í framtíðina fyrir komandi kynslóðir er afar mikilvægt.