149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

losun fjármagnshafta.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þegar tilkynnt voru áform um losun fjármagnshafta og aðgerðir því samhliða má segja að þær hafi í grófum dráttum skipst í þrennt. Einn af meginliðunum var hvernig skyldi standa að losun svokallaðra aflandskróna og útlistað með nokkuð skýrum og nákvæmum hætti hvaða aðferð skyldi notuð í því. Það kom jafnframt fram að allar þessar aðgerðir þyrftu að haldast í hendur, það þyrfti að gæta jafnræðis og það þyrfti að tryggja að allir legðu sitt af mörkum til að heildarplanið gengi upp og réttlætanlegt væri að ráðast í þær aðgerðir sem boðaðar voru.

Um mitt ár 2016 kom hins vegar eitthvert bakslag í þennan þriðja lið sem varðar aflandskrónurnar og aldrei hefur fengist tilhlýðileg skýring á því hvers vegna það var. Í framhaldinu hófst mjög vandræðalegt ferli í losun aflandskrónueigna sem fólst m.a. í síendurteknum samningaviðræðum við eigendur þessa fjármagns, vogunarsjóði, ekki hvað síst þá sem höfðu keypt þessar eignir á umtalsverðum afslætti og ætluðu að hagnast á þeim, og sífelldri undanlátssemi því að þegar það sem stjórnvöld loks lögðu upp með hverju sinni var ekki samþykkt þá var einfaldlega gengið til viðræðna aftur.

Nú hefur komið fram að stjórnvöld hyggist losa um restina af þessum aflandskrónueignum. Með öðrum orðum, þeir sem tóku ekkert mark á stefnu íslenskra stjórnvalda, þeir sem hlustuðu ekki á áformin, þeir sem trúðu því ekki að stjórnvöld myndu standa við það sem þau sögðust myndu gera ef menn væru ekki tilbúnir til samninga, hagnast mest. Hvað segir þetta um trúverðugleika íslenskra stjórnmála, íslenska stjórnkerfisins? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því og hvers vegna? Hvers vegna þessi stefnubreyting?