149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

staða eldri borgara hérlendis og erlendis.

444. mál
[11:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er lögð fram beiðni um skýrslu frá þingflokki Samfylkingarinnar að frumkvæði hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Skýrslubeiðendur telja brýnt að aflað verði ítarlegra upplýsinga um stöðu aldraðra hérlendis og í samanburði við önnur Norðurlönd og meðaltal ríkja OECD, þannig að umræðan um málefni aldraðra verði ítarlegri, vandaðri og umfangsmeiri.

Öldruðum sem hlutfall af þjóðinni fjölgar mikið. Nú eru um 50.000 manns 65 ára og eldri. Áætlað er að árið 2066 hafi þjóðinni fjölgað um 100.000 og að þá hafi 65 ára og eldri, samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, fjölgað um 50.000. Við væntum þess að hv. þingheimur taki vel í þessa beiðni og fallist á þessa úttekt sem gagnast mun með uppbyggilegum hætti við samningu heilbrigðisstefnu og stefnu um mótun málaflokksins í íslensku samfélagi til langs tíma.