149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

rammasamkomulag milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

448. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Baldur P. Erlingsson frá atvinnuvegaráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamkomulagi milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum —

(Forseti (SJS): Forseta líkar illa þetta skvaldur í salnum. Forseti biður hv. þingmann að hafa hljótt, hvort sem þeir sitja áfram í salnum eða ganga út.)

— sem gert var í London 21. júní 2018. Gert er ráð fyrir að samningsaðilar geti breytt efni viðauka á árlegum samráðsfundi ríkjanna um loðnustofninn ef samningsaðilar, sem hagsmuna hafa að gæta, samþykkja. Samningaviðræður ríkjanna hófust árið 2016 og náðist niðurstaða um gerð nýs þríhliða samkomulags milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um skiptingu leyfilegs hámarksafla og fyrirkomulag kvótaúthlutunar á viðræðufundi embættismanna í júní sl.

Loðnuveiðar á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen hafa á undanförnum árum farið fram á grundvelli þríhliða samnings landanna sem gerður var 2003 og tvíhliða samninga landanna sem gerðir voru einnig 2003.

Nýja rammasamkomulagið er ótímabundið en hægt er að segja því upp með einnar vertíðar fyrirvara. Samkomulagið felur í sér að hlutur Íslands í heildaraflanum minnkar úr 81% í 80%, hlutur Noregs minnkar úr 8% í 5% og hlutur Grænlands eykst úr 11% í 15%.

Í greinargerð kemur fram að samkomulagið staðfestir með formlegum hætti að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggist á langtímanýtingarstefnu.

Nýmæli í samningnum snýr að því að bótaskylda miðar við að ákvörðun um heildarafla sé tekin 5. febrúar eða síðar á árinu og um annað sem er tekið fram í greinargerðinni vísa ég til nefndarálitsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir það rita undirrituð, formaður nefndarinnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, aðrir hv. þingmenn; Ari Trausti Guðmundsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Una María Óskarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.