149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[13:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns um þá greiningu sem fram hefur farið er mikilvægt að hafa í huga að einn megintilgangur frumvarpsins er einfaldlega afnám einkaréttar ríkisins á bréfum undir 50 grömmum sem ríkið hefur til þessa falið Íslandspósti að sinna. Þar með verður loks opnað fyrir samkeppni hér á landi á þeim hluta póstmarkaðs sem hefur fallið undir einkaréttinn líkt og allar aðrar Evrópuþjóðir hafa valið að fara.

Annar megintilgangur frumvarpsins er síðan að tryggja eftir sem áður svokallaða alþjónustu, eins og stjórnvöld kjósa að skilgreina hana á hverjum tíma. Í grunninn snýst alþjónusta um að tryggja öllum lágmarksþjónustu og tíðni útburðar á pósti á viðráðanlegu verði. Kostnaður Íslandspósts vegna alþjónustu og endurheimt þess kostnaðar er grundvallaratriði í rekstri Íslandspósts. Við undirbúning póstfrumvarpsins fól því ráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að greina það verkefni í nóvember árið 2016 að meta kostnað við alþjónustu í póstflutningum og skilaði stofnunin skýrslu í júní 2017 og var hún lögð til grundvallar við undirbúning frumvarpsins, þ.e. sú greining.

Það má líka vera ljóst að mat á áhrifum frumvarpsins er flókið vegna töluverðrar óvissu um framtíðina og þróunina þar sem bréfum fækkar hratt og jafnvel hraðar en menn höfðu áætlað og talsverð óvissa er að mínu mati um hvernig þróunin verður í pakkasendingum, bæði innan lands og einnig frá útlöndum. Því er þörf á að lögin feli í sér verulegan sveigjanleika og ég tel að svo sé í því frumvarpi sem ég hef lagt fram á þinginu. Stefnt er að því að gera þjónustusamning þannig að hægt sé að meta árlega hvað ríkið er tilbúið að borga til að halda uppi ákveðnu þjónustustigi og þá með hliðsjón af því hver þörfin verður.

Hafa verður í huga að rafræn samskipti og rafræn þjónusta er að taka við af hefðbundnum bréfapósti og talsverð óvissa er, eins og áður er getið, með þróun pakkasendinganna.

Frumvarpið leggur ýmsar línur er snerta póstrekstur almennt, svo ég svari því hvernig á að takast á við tapið, og klárlega í starfsemi Íslandspósts ekki hvað síst. Í því samhengi er vert að hafa í huga að um er að ræða innleiðingu á Evróputilskipun þar sem svigrúm til útfærslu er afmarkað og hefur legið fyrir í mörg ár. Gert er ráð fyrir að tekið verði á tapinu í þjónustusamningi milli ríkis og Íslandspósts. Hann er hugsaður þannig í grófum dráttum að Íslandspóstur áætli alþjónustukostnað fyrir mismunandi þjónustustig fyrir komandi ár. Það fyrsta yrði væntanlega 2020. Ríkið sem samningsaðili færi yfir þá útreikninga og legði til breytingar eftir atvikum. Þannig mun verða til spá um kostnað fyrir næsta ár sem leggur til grundvallar ákvörðun stjórnvalda um að kaupa ákveðið þjónustustig af félaginu á næsta ári. Þetta skapar aukinn fyrirsjáanleika, bæði fyrir útgjöld ríkisins sem og rekstur félagsins. Að ári liðnu verður svo metið hvernig sú spá hefur gengið eftir, bæði með tilliti til aðlögunar og greiðslu til hækkunar eða lækkunar sem og vegna spár um kostnað vegna næsta og svo koll af kolli.

Stjórnvöld geta með þessu fyrirkomulagi ákveðið hvort heldur að tryggja tiltekið lágmarksþjónustustig gegn tilteknu samningsframlagi eða t.d. ákveðið hámarksfjárframlag sem stjórnvöld væru tilbúin að leggja af mörkum á hverjum tíma og aðlaga þjónustustigið að því. Þetta er það samnings- og greiðslufyrirkomulag sem lagt er upp með í ráðuneytinu sem hefur hafið undirbúning á að taka á þessu.

Hvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið varðar einna helst er komið til móts við óvissu um útfærslu á alþjónustu gagnvart notendum póstþjónustu á Íslandi annars vegar og samsvarandi óvissu um kostnað íslenska ríkisins við að tryggja valið þjónustustig hins vegar með gerð þessa þjónustusamnings sem minnst hefur á, í það minnsta áður en aðrir valkostir verða færir, svo sem útboð á einum eða fleiri þjónustuþáttum. Útboð á hvers konar þáttum póstþjónustu er ekki talinn raunhæfur valkostur alveg á næstu misserum, eins og fram kemur í frumvarpinu. Einnig er mikilvægt að fá fram viðbrögð markaðsaðila við breyttum aðstæðum á póstmarkaði við afnám einkaréttar. Svo á eftir að koma í ljós á hvaða undirmörkuðum póstmarkaða, svo sem söfnun, flokkun, dreifingu, sé mögulega flötur á heilbrigðri samkeppni.

Eðli máls samkvæmt mun þróun á póstmarkaði og þar með málefni Íslandspósts ohf. vafalaust bera á góma í þinginu á næstu misserum og jafnvel árum. Æskilegast væri að sjálfsögðu að alþjónusta verði uppfyllt á hreinum markaðsforsendum, þau lönd eru til í Evrópu. Verður það keppikefli ráðuneytisins hversu óraunhæft sem það langtímamarkmið kann að virðast í augnablikinu.

Hin hliðin á málinu er sú að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer ekki með hlutabréfið í félaginu, skipar ekki stjórn þess, ákveður ekki skipulag eða stefnu félagsins og hefur ekki áhrif eða boðvald um rekstur eða fjárfestingar þess. Þetta eru þættir sem snúa að fjármálaráðuneytinu og er mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu.

Nýtt frumvarp að póstlögum liggur nú fyrir þinginu, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það setur eðlilega ákveðinn ramma um fyrirkomulag póstþjónustu til komandi ára. Útfærsla þess er þess eðlis að það veiti stjórnvöldum töluvert svigrúm til að aðlaga alþjónustuna að þörfum samfélagsins, tækniþróun, eftirspurn sem og greiðsluvilja Alþingis. Frumvarpið breytir þó ekki núverandi ábyrgðarskiptingu milli ráðuneytanna er lýtur að ofangreindu.

Það fellur í skaut þess ráðuneytis sem fer með eignarhald á Íslandspósti á hverjum tíma að bera ábyrgð á því að stjórn félagsins og stjórnendur aðlagi félagið og rekstur þess að fyrirsjáanlega breyttum aðstæðum og áskorunum. (Forseti hringir.) Það hefur komið fram að fjármálaráðuneytið hefur sett af stað margþætta vinnu í tengslum við málefni Íslandspósts er lúta að þessum málum og við bindum því vonir við að sú vegferð leiði til þess að hagkvæmari og skilvirkari rekstur muni hafa sitt að segja til lækkunar á mögulegu ríkisframlagi vegna alþjónustu í framtíðinni í breyttu fyrirkomulagi.