149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu hans og nefndarálit en ég tel samt óhjákvæmilegt að bregðast við nokkrum af þeim atriðum sem hann spurði um af því að ég held að það sé bara til glöggvunar á umræðunni.

Í fyrsta lagi ræddi hv. þingmaður um óvænt útgjöld. Við deilum í sjálfu sér alveg skoðunum um þau efni, hvort útgjöld séu óvænt, en hann nefndi hérna nokkra þætti sem mér finnst nauðsynlegt að ég svari.

Í fyrsta lagi er kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna vegabréfaútgáfu og þess kerfis sem þarf að byggja um það í kringum Indlandsflug sem nú er hafið. Við getum síðan haft allar skoðanir á framtíð þess. Ég vona að það gangi vel og held að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að geta haslað okkur völl á þeim markaði, enda gríðarlega fjölmenn þjóð og þar liggja mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. Þarna falla til 45 millj. kr. vegna þess að einkafyrirtæki ákveður að hefja flug til þessa staðar og þá má eiginlega velta fyrir sér hvort það séu ekki nákvæmlega svona tilfelli þar sem eru óvænt útgjöld. Þarna skapast aðstæður sem þarf að bregðast við og þess vegna er ráðist í þessar fjárfestingar upp á 45 millj. kr.

Annar þáttur sem hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni var að honum fannst óljós fjárheimild vegna eftirlits með heimagistingu. Það er millifærsla frá atvinnuvegaráðuneyti til dómsmálaráðuneytis og til sýslumanna um það eftirlit upp á 29,7 millj. kr. þannig að það er í eðli sínu ekki viðbótarkostnaður heldur birtist með þessum hætti í fjáraukalögum.

Um önnur verkefni og þróun útgjalda myndi ég vilja fá að ræða við hv. þingmann í seinna andsvari.