149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans og er í mörgu sammála því sem hann rakti í ræðu sinni. En ég vil gera athugasemdir við annað. Ég vil ekki taka undir það að breytingartillögur okkar séu illa ígrundaðar eða úr lausu lofti gripnar, þær breytingar sem þar þarf að gera. Ég hlýt að mótmæla því.

Ég er ekki með háan starfsaldur í pólitík, virðulegi forseti. Ég hef samt pólitíska fortíð að því leyti að ég sat um tíma sem formaður fjárlaganefndar í ríkisstjórnarmeirihluta og hv. þingmaður sat þá í ríkisstjórn. Mér finnst það ósiður við stjórnmál þegar menn tala eins og þeir eigi sér ekki sína sögu, og svo ætla ég ekkert að segja neitt meira um það. Mig langar bara að biðja hv. þingmann að minnast þess og bregðast við því að sú ríkisstjórn sem sat meðan ég var formaður hv. fjárlaganefndar greip til þess á miðju ári að færa til fjármuni til samgöngumála upp á 1,2 milljarða. Þá langar mig að biðja hv. þingmann að svara því hvernig hann hefði farið með það í frágangi fjárlaga. Við studdum báðir ríkisstjórn sem lagði fram fjárlagafrumvarp á því hausti þegar sá ósiður var enn uppi að gera ekki ráð fyrir fullnaðargreiðslum fyrir kirkjujarðasamkomulagið. Við sátum líka uppi með það á haustdögum í þeirri fjárlaganefnd að hv. heilbrigðisráðherra, sem þá sat, var komin eina 6 milljarða fram yfir á sínum heimildum vegna niðurgreiðslu lyfja. Hvernig hefði hv. þingmaður brugðist við því í þeim ríkisstjórnarmeirihluta?