149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðallega kominn hingað upp til að þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir ágæta ræðu og margt gott og skynsamlegt sem kom fram í henni. Ég vil líka þakka hv. þingmanni sem og öðrum samnefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða samvinnu.

Ég hnaut um það sama og hv. þm. Snæbjörn Brynjarsson, þetta með bækurnar, of margar bækur. Ég verð að játa að ég á auðvelt með að farga bókum og hef gert mikið af því um dagana. Það hefur náttúrlega borist mikið af bókum til mín og ég hef getað fargað þeim smám saman sem mig langar ekki að eiga. Svo eru aðrar sem mig langar að eiga. Svo kannski finn ég allt í einu bók sem mig langaði ekkert að eiga en mig langar aftur að eiga o.s.frv. Bækur eiga sér framhaldslíf og þær deyja og svo lifna þær aftur og við vitum aldrei almennilega hvernig því er háttað.

Bók er umbúðir utan um hugsun, utan um óáþreifanlegt líf sem kviknar í heilabúi og berst inn í annað heilabú. Mig langaði að biðja hv. þingmann um að hugsa aðeins með mér um það hvort það sé kannski bara allt í lagi að það sé mikið framboð af bókum og það sé bara allt í lagi þó að svo og svo miklu af bókum sé fargað og sé ekki lengur til og sé ekki lengur á markaði vegna þess að það sé ekki lengur markaður fyrir þær. Með öðrum orðum hvort það sé svona óskaplega mikið vandamál að til sé mikið af bókum. Það er náttúrlega framleitt mikið af t.d. stólum eða konfektkössum eða alls konar varningi sem á sér sitt líf, þ.e. efnislegir hlutir. Hugmyndirnar eru áfram (Forseti hringir.)til. En svo er því fargað og þá er það bara allt í lagi.