149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[13:51]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu um atvinnustefnu á opinberum ferðamannastöðum sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason átti frumkvæði að. Ég hafði reyndar sjálf hugleitt að hafa frumkvæði að umræðu á þeim nótum.

Þessi umræða er aðkallandi nú þegar auðlindanýting á landi verður sífellt fjölbreyttari og ný viðfangsefni skjóta upp kollinum. Auðlindir og gæði á ferðamannastöðum eru takmörkuð auðlind og til að byggja upp atvinnutækifæri á þeim stöðum þurfum við að ræða aðferðir til að ákveða hverjir fái að nýta tækifærin og aðferðir til að setja skilyrði eða gjald fyrir leyfi til að nýta gæðin. Þekking á þolmörkum staða verður að vera forsenda nýtingar og einhvers konar útboð þurfa að vera grunnur að leyfinu til að nýta gæðin á ferðamannastöðum.

Afgjaldið fyrir afnotin af auðlindinni er ekki endilega í krónum talið og má alls ekki hugsa um það sem aðalatriðið, heldur verða þeir sem geta sýnt fram á sjálfbæra nýtingu að njóta forgangs. Í sjálfbærri nýtingu felst m.a. þekking á auðlindinni sem á að nýta, þekking á umgengni við auðlind, þekking á starfseminni sem á að byggja upp, samtal við samfélagið í kring og að sýnt sé fram á að unnt sé að uppfylla öryggis- og gæðakröfur.

Sjálfbær uppbygging varðar ekki eingöngu umgengni um auðlindir náttúrunnar eða minjar. Það þarf líka að hyggja að sjálfbærni samfélaga. Það þarf sérstaklega að huga að því að tækifæri gefist til heilsársbúsetu og að störf séu skipulögð þannig að þau henti heimafólki sem býr og hrærist í samfélaginu næst viðkomandi ferðamannastað.

Það er oft gagnrýnt þegar stór fyrirtæki koma inn í strjálbýli hvar sem er í heiminum að skipulag starfa hentar eingöngu þeim sem starfa tímabundið á svæðinu. Þannig má þetta ekki verða í ferðaþjónustunni (Forseti hringir.) hjá okkur og allra síst hjá opinberum aðilum. Uppbygging og þekking heimamanna, (Forseti hringir.) menntun, þjálfun og staðþekking skilar sjálfbærri uppbyggingu.