149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á Alþingi fæðast margar góðar hugmyndir, sem betur fer. Hv. þingmaður Samfylkingarinnar reifaði tillögu þeirra um aðgerðir í húsnæðismálum og eins og ég sagði áðan er ég ekki í nokkrum vafa um að þar verður ágætissamhljómur með ýmsu af því sem átakshópur í húsnæðismálum leggur til. Ég þekki ekki nákvæmlega inntak frumvarps Miðflokksins um aðgerðir gegn kennitöluflakki en ég er viss um að við erum sammála um markmiðið, sem er að berjast gegn kennitöluflakki. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þar munum við líka geta fundið góðan samhljóm. Líkt og ég sagði í ræðu minni er mjög mikilvægt að við náum saman um að byggja heilbrigðari vinnumarkað.

Við eigum ekki í okkar góða samfélagi að líða að þar tíðkist félagsleg undirboð, kennitöluflakk eða aðrir slíkir þættir sem í raun og veru kasta skugga á vinnumarkaðinn allan, þó að ekki sé nema um lítið hlutfall fólks að ræða sem iðkar slíkt. Það skiptir miklu máli að við náum samstöðu um markvissar og góðar aðgerðir gegn slíku og ég fagna því að Miðflokkurinn hafi sett það mál á dagskrá.