149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég sagði í ræðu minni, og ég veit að við erum ekki öll sammála um það, er það er mín eindregna skoðun að mjög mikilvægt sé að við ljúkum tilteknum breytingum á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili og því næsta. Ég held að við munum ekki ljúka þeim ef við ætlum að festa okkur við það að engu megi breyta eða að drögum stjórnlagaráðs verði ekki breytt. Ég vil minna á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni var spurt hvort ætlunin væri að byggja á þeim drögum en ekki hvort við ættum að samþykkja þau óbreytt.

Ég vil líka minna á að stjórnarskrárbreytingar munu ekki fara í gegn nema við samþykkjum þær á Alþingi og ef næsta þing samþykkir þær, miðað við núgildandi breytingarákvæði stjórnarskrár. Það er veruleikinn og innan hans tel ég mig vera að vinna.

Hvað varðar gagnsæið ætla ég að segja við hv. þingmann: Jú, við getum gert betur í því. Rætt var á síðasta fundi að við myndum birta vinnuskjöl okkar og vinnugögn til að almenningur fengi meiri innsýn í það (Forseti hringir.) hvað við erum að ræða á þeim fundum. Ég vonast til að það geti gengið í gegn á næstunni.