149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka forsætisráðherra fyrir umræðuna. Mig langar að spyrja hana. Nú eru kjarasamningar fram undan og lágmarkskrafa um laun eru 420.000 kr. þannig að fólk fái 300.000 kr. útborgað. Er ekki betra að hækka persónuafsláttinn, koma honum í það sem hann var fyrir þremur áratugum síðan, þannig að fólk fái 300.000 kr. skatt- og skerðingarlaust?

Svo langar mig líka að vita: Er ríkisstjórnin með útreikning á því hver lágmarkslaun í landinu þurfi að vera til þess að fólk geti lifað með reisn og ekki í fátækt? Ef sú tala er ekki til er þá verið að reikna hana út? Eða er verið að reyna að finna út hvað fólk þarf að hafa til að geta lifað með reisn og ekki í fátækt hér á landi?