149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég ætla samt að halda mig á svipuðum slóðum og segja við hv. þingmann að auðvitað þurfum við að takast á við það sem við höfum áður rætt, að jafna kjör fólks með ýmsum hætti. Ég verð að minnast á hópinn sem hv. þingmaður veit að hefur verið að vinna og ríkisstjórnin er með í stjórnarsáttmála um tekjuskattsbreytingar, sem er gott og verður væntanlega gott innlegg inn í kjaraviðræðurnar þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

Ég gleymdi meira að segja að minnast á það áðan þegar talað var um eldri borgara á heljarþröm að okkar fyrsta verk um áramótin 2017/2018, þegar þessi ríkisstjórn tók við, var að hækka frítekjumarkið eins og sá hópur hafði óskað eftir. Það er aðeins eitt af því sem við höfum gert. Ég vil minna þingmanninn á að stundum er líka gott að vera með jákvæðu gleraugun á nefinu þótt maður gagnrýni það sem gagnrýna ber. (Forseti hringir.) Mér fannst hann fullmyrkur í máli, eins og ég sagði áðan, og hefði kosið að hann tæki undir þó það sem gott hefur verið gert.