149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:24]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Það get ég sagt að hv. þingmaður á margt gott eftir fyrst hann á eftir að nota gleraugu Framsóknarmanna af því að við tölum fyrir jöfnuði og jafnrétti í samfélaginu, við tölum fyrir innviðauppbyggingu og jöfnum tækifærum um allt land. Það er það sem við erum að vinna að hér.

Það var eftirspurn eftir innviðauppbyggingu fyrir þessar kosningar, fyrir þetta kjörtímabil, og að því er klárlega unnið. Framlög hafa verið stóraukin til heilbrigðismála, menntamála og inn í samgöngukerfið, sem var kallað eftir og þar erum við á góðri leið. Margt þarf að gera betur en við erum svo sannarlega á réttri leið. Það er mín bjargfasta trú. Ég vona að við náum saman um það af því að líkt og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir taldi upp hafa aldrei færri stofnanir komið á löngu tímabili til fjárlaganefndar með ákall um að eitthvað vanti. Við erum komin með fleiri greiningargögn. Við getum haldið betur utan um þá (Forseti hringir.) sem minna mega sín og erum í fullum færum með það. Ég vona að við getum verið sammála þar.