149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni að margt merkilegt kemur í ljós þegar þessi nýi vefur er skoðaður. Það er alveg rétt að þar er hópur sem virðist eiga erfiðara með að hreyfa sig á milli tekjutíundanna. En það sem er áhugavert líka er að langstærsti hluti þess hóps, sem í gegnum árin hefur verið í þessum lægstu tekjutíundum, hreyfist upp. Félagslegur hreyfanleiki á Íslandi er mjög mikill.

Í mínum huga þýðir það að Ísland er alla jafna land tækifæranna. Langflestir sem fæðast hér á landi eða flytja hingað til lands hafa mjög góð tækifæri. En það á ekki við um alla. Þess vegna skiptir öllu máli að vera með sterkt öryggisnet fyrir þá. Og það sem maður sér í þessu er að þá skiptir einnig máli að einblína enn frekar á þann hóp sem hreyfist ekki úr þessum lægstu tekjutíundum, þ.e. hægt er að leggja sérstaka áherslu á þá hópa.

Í umræðunni eru alls konar hópar með alls konar sjónarmið um sína stöðu. En þarna er hægt að sjá það mjög svart á hvítu. Og ég fagna þessari vinnu mjög.

Varðandi jöfnuð og tekjulægri hópa hlýt ég að halda því til haga að jöfnuður er mjög mikill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og sömuleiðis vil ég vekja athygli á þeirri vinnu sem unnin er á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi skattkerfisbreytingar þar sem gert er ráð fyrir að töluverðir fjármunir, um 14 milljarðar ef ég man rétt, fari í kerfisbreytingar í þá veru að bæta sérstaklega stöðu tekjulægri hópa.

Varðandi EES-samstarfið er það ekki tilviljun að ég lagði ríka áherslu á það í ræðu minni. Ég geri mér grein fyrir að við munum þurfa að ræða þau mál (Forseti hringir.) mjög mikið næstu misseri og ég er algerlega klár í þá umræðu.