149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, en ég ætla að byrja á því að segja að ég sagði aldrei að ungt fólk ætti sér ekki framtíð á Íslandi, bara svo það sé á hreinu. Ég sagði að við yrðum að tryggja að ungt fólk sæi tækifæri í framtíðinni. Ég taldi það ekki vera svo eins og staðan er núna.

Varðandi það að setja ábyrgð á herðar neytenda þegar kemur að umhverfismálum biðst ég afsökunar ef það hefur misskilist á þann hátt að ég hafi verið að saka ríkisstjórnina og framgöngu hennar um að setja ábyrgðina á herðar neytenda. Ég er aðallega að tala um mikilvægi þess og því finnst mér oft vera ofboðslega mikill fókus á ábyrgð neytenda í umræðunni yfir höfuð en minna af aðgerðum þegar kemur að raunverulegum skaðvöldum í samfélaginu okkar sem ég tel hagvöxtinn vera og fókusinn á endalaus markmið um aukinn hagvöxt. Það finnst mér vera stærsti skaðvaldurinn þegar kemur að loftslagsbreytingum og umhverfismálum.

Mig langar eiginlega til að virða að vettugi þá athugasemd að of fáir hafi greitt atkvæði í atkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána. Þetta var þjóðaratkvæðagreiðsla. Þeir mættu sem mættu. Þeir létu í ljósi vilja sinn. Við virtum það að vettugi. Hvað er langt síðan? Síðan þá eru liðnir 2.284 dagar og við áttum náttúrlega að vera búin að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá fyrir löngu.