149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða spurningu. Ég hef ekki skilið af hverju ekki er hægt að koma því almennilega inn í umræðu í þingsal. Ég veit ekki betur en að það sé umræðan sem er fyrir nefndinni, að menn hafi fullan skilning á því að til standa m.a. þrjár breytingar er varða einhvers konar gjaldtöku. Það er hugmynd um að taka viðbótargjald af jarðgöngum vegna viðhalds og öryggisstigsins sem er hærra en fyrir vegi. Það er enginn að tala um að fara að endurgreiða kostnaðinn við jarðgöng. Það hefur verið flýtiframkvæmd, sem við höfum rætt aðeins fyrr, og síðan hefur verið rædd hugmynd um einhvers konar borgargjald, m.a. að tillögu höfuðborgarinnar, möguleika á að þeir geti lagt fram slík gjöld. Það yrði hluti af því samkomulagi sem verður gert á milli ríkis og sveitarfélaga og stefnt hefur verið að að klára á næstu mánuðum, í febrúar eða mars, þar sem við myndum klára uppbygginguna eða sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að klára uppbyggingu almenningssamgangna á næstu 15–20 árum, stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. Ávinningurinn yrði gríðarlegur í umferðaröryggi og uppbyggingu á því. Allt þetta hef ég séð fyrir mér að væri hluti af lausninni. Ég þakka fyrir tækifærið til að tala um þetta (Forseti hringir.) hér og hefði reyndar áhuga á því að fá lengri tíma til að ræða það í þessum sal.