149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir yfirgripsmikla hraðferð hér áðan. Mig langar aðeins að víkja að fyrirhuguðum veggjöldum svokölluðum. Þetta snýst allt um fjármögnun. Á sama tíma finnst mér alveg með ólíkindum hvernig forgangsröðun fjármuna er hjá okkur. 7 milljarðar fóru í að lækka bankaskattinn um 63%. Var þörf á því? Ég heyri ekki talað um t.d. 2.000 kr. komugjald á 2,5 milljónir ferðamanna. Það eru 5 milljarðar. Hvers vegna er alltaf talað um frekari og víðtækari álögur á landsmenn? Á hverjum bitna þær helst? Hver getur keypt sér fyrir 70.000 kall 100 miða til að lækka verðið á ferð sinni í gegnum Vaðlaheiðargöngin? Ekki öryrki, það er alveg á hreinu, ekki láglaunamaður sem fær útborgað 200.000–220.000 kr.

Ég bið bara, virðulegi forseti og hæstv. ráðherra: Í guðanna bænum, ekki gleyma þeim sem þurfa að sitja uppi með þessa klafa. (Forseti hringir.) Getum við ekki reynt að búa til einhverja aðra umgjörð? Þetta er illa ígrundað og bitnar á þeim sem síst skyldi.