149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mótmæli því að þetta sé illa ígrundað, þetta er sérstaklega vel og mikið ígrundað. Þetta snýst um umferðaröryggi. Við verðum á ári hverju fyrir því sem samfélag að tjón okkar vegna alvarlegra slysa og banaslysa nemur á bilinu 50–60 milljörðum, fyrir utan örkuml og alls konar afleiðingar sem slíkt hefur í för með sér.

Með því að flýta framkvæmdum og hugsa verkefnið þannig gætum við, og ég set það sem markmið, lækkað þessa upphæð um helming, farið með hana niður í 25 milljarða á ári. Á hverju einasta ári gætum við sparað 25 milljarða vegna slysa en auðvitað miklu frekar í færri slysum, minni sorg, töpuðum mannslífum eða töpuðum lífsgæðum fólks sem þarf að búa við einhvers konar örkuml það sem eftir er ævinnar vegna þess að það hefur lent í bílslysi.

Ég myndi segja að það væri miklu mikilvægara að leggja áherslu á það en að tala um að veggjöldin séu illa ígrunduð. Ég tel að þau séu gríðarlega vel ígrunduð. Það er hins vegar alveg fráleitt að blanda þessu öllu saman eins og hér var gert, með bankaskatti og öðru. Bankaskatturinn leggst auðvitað (Forseti hringir.) beint ofan á allar skattgreiðslur, allar vaxtagreiðslur okkar, og gerir vextina hærri (Gripið fram í.) þannig að vextirnir munu lækka. Það mun kannski skipta miklu meira máli en þeir fjármunir sem þar eru eins og margir hafa á bent. Síðan er verið að vinna að því að taka upp einhvers konar komugjöld. En það er líka talað um að þeir sem greiða einu sinni í gegnum einhvers konar leiðir muni greiða hlutfallslega hærra verð og það eru einmitt ferðamenn.