149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

stuðningur við landbúnað.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er nú bara heilluð af þessari síðustu líkingu og vona að ég sé ekki hjartadrottningin eða spaðadrottningin eða hvað það var sem hálshjó allar aðrar persónur í Lísu í Undralandi sem var ein af mínum eftirlætissögum þegar ég var barn. En við erum að undirbúa þessa stefnumótun og ég nefndi þann undirbúning sem nú fer fram af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er að kortleggja stöðuna þegar kemur að innlendri matvælaframleiðslu en ekki bara framleiðslu heldur líka neyslu. Við þurfum til að mynda að huga að því hve hátt hlutfall þess sem við neytum er innlend matvæli.

Ég vil líka nefna stefnu í opinberum innkaupum sem ætlað er að draga úr kolefnisfótspori vegna matvælaneyslu hjá hinu opinbera. Ég vil líka nefna matarsóun. Ég heimsótti ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi í síðustu viku. Þau hafa dregið úr matarsóun í sínum rekstri um 57% fyrir hvern gest. Þetta er það sem mér finnst frábært, að sjá einkaaðila stíga fram og taka forystuna með svona stefnu. Þetta sýnir mér hvað við eigum mikil tækifæri. Ég nefndi bara nokkra málaflokka áðan sem ég taldi að ættu að koma að þessu verkefni en (Forseti hringir.) þetta tengist líka atvinnugreinum á borð við ferðaþjónustu og tengist byggðamálunum eins og hv. þingmaður nefndi. Ég held að þetta eigi að vera verkefni okkar á næstunni, ekki síst út af stöðunni í loftslagsmálum.